Ný bók um verndun jarðminja í Evrópu


Kápa bókarinnar Geoheritage in Europe and its conservation.

Bókin er gefin út af samtökunum ProGEO (The European Association for the Conservation of the Geological Heritage) sem frá árinu 1991 hafa haft það að meginmarkmiði að efla jarðminjavernd og upplýsa stjórnvöld og almenning um nauðsyn þess að vernda jarðminjar.  Aldrei hefur verið jafn mikil þörf á að vernda jarðfræðilegar myndanir og í dag þegar hraði skipulags og framkvæmda hefur farið fram úr framtíðarsýn stjórnvalda um sjálfbæra þróun. Jarðminjar eru sögulegar heimildir um tilurð jarðar, myndun landslags og þróun lífs í gegnum jarðsöguna sem þarf að vernda. Skilningi stjórnvalda á þessum verndarflokki hefur verið ábótavant og á það ekki einungis við um Ísland heldur er svipaða sögu að segja víða um Evrópu. Í bókinni eru ómetanlegar upplýsingar um verndun jarðminja í Evrópu, fyrst og fremst út frá náttúruverndarlögum og öðrum lagalegum forsendum. 

Ritsjórar bókarinnar eru William A.P. Wimbledon og Sylvia Smith-Meyer en formála skrifar forseti ProGEO. Höfundar frá hverju Evrópulandi skrifa um jarðminjavernd í sínu landi og er löndunum raðað niður eftir stafrófsröð. Höfundar texta um vernd jarðminja á Íslandi eru Lovísa Ásbjörnsdóttir, Sigmundur Einarsson og Kristján Jónasson jarðfræðingar hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Varðandi sögu náttúruverndar hér á landi leituðu höfundar í þekkingarbrunn Guðríðar Þorvarðardóttur hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Bókin er gefin út í Noregi, hún er 405 blaðsíður og ríkulega skreytt með myndum og kortum. Frekari upplýsingar um bókina verða birtar fljótlega á vefsíðu ProGEO.