Styrkur til rannsókna á eldstöðvakerfi Bárðarbungu

14.01.2013
Frá styrkveitingu Vina Vatnajökuls 23. nóvember 2012
Mynd: Lovísa Ásbjörnsdóttir
Frá styrkveitingu Vina Vatnajökuls, 23. nóvember sl.

Náttúrufræðistofnun Íslands hlaut í nóvemberlok styrk upp á 1.292.316 krónur til verkefnis er varðar eldstöðvakerfi Bárðarbungu. Styrkurinn er veittur af Vinum Vatnajökuls, hollvinasamtökum Vatnajökulsþjóðgarðs.

Markmið verkefnisins er að taka saman gögn um jarðfræði og gossögu eldstöðvakerfis Bárðarbungu og setja fram á aðgengilegan hátt. Bárðarbungukerfið er mesta eldstöðvakerfi landsins, en til þess teljast Veiðivatna- og Dyngjuhálsgosreinarnar ásamt megineldstöðvum í Bárðarbungu og Hamrinum. Staða þekkingar verður könnuð og upplýsingar samræmdar. Þá verða farnar vettvangsferðir um svæðið í þeim tilgangi að samræma upplýsingar frekar og fylla í eyður. Kerfinu verður síðan lýst á aðgengilegan hátt og mikilvægi jarðminja dregið fram. Þá verða lögð drög að áhugaverðum rannsóknarverkefnum fyrir framhaldsnema í jarðvísindum. Gert er ráð fyrir að ljúka verkefninu í árslok 2014. Verkefnisstjóri er Kristján Jónasson, jarðfræðingur.

Vinir Vatnajökuls eru frjáls félagasamtök sem voru stofnuð árið 2009. Síðan 2010 hafa samtökin árlega veitt styrki í verkefni sem falla undir rannsóknir, kynningu og fræðslu um Vatnajökulsþjóðgarð og nágrenni hans, nú síðast 23. nóvember sl. þegar 30 styrkjum var úthlutað, þar á meðal til Náttúrufræðistofnunar Íslands. Sjá nánar á vef Vina Vatnajökuls.