Þrjú ný Ramsarsvæði


Frá Ramsarsvæðinu í Guðlaugstungum. Ljósm. Guðmundur Guðjónsson.

Verndarsvæðið í Andakíl við Hvanneyri nær yfir stærstan hluta votlendis við Andakíl. Á svæðinu eru votlendi fjölbreytt og víðfeðm, með ám, stöðuvötnum, smátjörnum, sýkjum, flæðiengjum og mýrum. Svæðið er afar mikilvægt fyrir blesgæs en talið er að um 10% grænlenska stofnsins hafi viðdvöl á verndarsvæðinu vor og haust á leið sinni til og frá varpstöðvum á Vestur-Grænlandi. Einnig er svæðið þýðingarmikið fyrir margar tegundir fugla verpa þar.

Í friðlandinu í Guðlaugstungum er eitt víðáttumesta votlendissvæðið á miðhálendi Íslands. Það er einkum mikilvægt fyrir þann fjölda heiðagæsa sem verpir á svæðinu og nýtir það jafnframt sem fæðusvæði. Áætlað er að allt að 13.000 pör verpi á svæðinu. Votlendi á svæðinu er víðfeðmt og gróskumikið með stórum, fjölbreyttum og mikilvægum rústasvæðum. Landslag einkennist af heiðalöndum, votlendi, rústum, mólendi og bersvæði, ám og vötnum.


Heiðagæsir í felli á Eyjabakkasvæðinu. Ljósm. Skarphéðinn Þórisson.

Snæfells- og Eyjabakkasvæðið

nær til votlendis milli Snæfells og Eyjabakka og er innan norðausturmarka Vatnajökulsþjóðgarðs. Svæðið er fjölbreytt, með mýrum, flóum, rústum, tjörnum, vötnum, lækjum og ám. Það er alþjóðlega mikilvægt fyrir fugla og er lykilsvæði fyrir heiðagæsir sem fella þar flugfjaðrir og nýta svæðið til beitar á viðkvæmum og mikilvægum tíma fyrir fuglana.

Með nýju svæðunum eru Ramsarsvæðin á Íslandi nú orðin sex talsins. Fyrsta svæðið sem var tilnefnt af Íslands hálfu er Mývatn-Laxá, sem var samþykkt árið 1977; Þjórsárver voru samþykkt árið 1990 og Grunnafjörður árið 1996. Þess má geta að Náttúrufræðistofnun Íslands vann að undirbúningi tilnefninga Guðlaugstungna og Eyjabakkasvæðisins, meðal annars með öflun upplýsinga um lífríki svæðanna, sérstaklega hvað varðar fuglategundir og vistgerðir. Stofnunin annaðist einnig kortagerð og mat á verndargildi svæðanna með tilliti til viðmiða sem sett eru af Ramsarsamningnum.