Vorboði í Garðabæ


Rjúpukarri hefur valið sér óðal í Búrfellshrauni í Garðabæ. Ljósm. Erling Ólafsson.

Einn af þeim fuglum sem er með okkur allt árið er blessuð rjúpan. Yfirleitt leynist hún vel og erfitt er að koma auga á hana, er hvít eins og mjöllin á vetrum og brún eins og landið á sumrin. Undantekning frá þessari reglu er vorið en þá notar karrinn, karlfugl rjúpunnar, hvítan vetrarbúninginn sem sitt brúðgumaskart. Félagskerfi rjúpunnar á vorin er þannig að karrinn helgar sér óðal sem hann ver fyrir öðrum körrum. Á óðalstímanum er karrinn mjög áberandi, snjóhvítur á dökku landi, hreykir sér á hólum og flýgur um og ropar. Kvenfuglarnir aftur á móti láta lítið fyrir sér fara en þeir eru orðnir nær albrúnir í fyrri hluta maí. Óðalstíminn varir í um 6 vikur og hefst með því að karrinn sest upp, eins og það er kallað, og lýkur þegar kvenfuglarnir verpa. Í Þingeyjarsýslum setjast karrar upp um 20. apríl en eitthvað fyrr á sunnanverðu landinu. Þessi breyting á háttalagi karrans boðar vorið líkt og komur farfugla gera.

Í hrauninu neðan Vífilsstaða í Garðabæ sást fyrsti karrinn sitja uppi í gærmorgun, 2. apríl, starfsmönnum Náttúrufræðistofnunar til gleði og ánægju.