Dagmálatjörní Biskupstungum – 15 árum eftir endurheimt

Frá Dagmálatjörn, breiða af mýrastör og tjarnastör í gamla tjarnarbotninum, sér til tjarnarinnar fjær, Bláfell að baki í austri. Ljósm. Borgþór Magnússon, 2. júlí 2013.

Vorið 1998 var gerð tilraun á vegum Votlendisnefndar til að endurheimta Dagmálatjörn í Biskupstungum. Nefndin starfaði árin 1996-2006 á vegum landbúnaðarráðuneytis og umhverfisráðuneytis og kom að endurheimt votlendis á 15 svæðum á landinu. Starfi nefndarinnar lauk með útgáfu skýrslu um verkefni hennar. Náttúrufræðistofnun Íslands tók þátt í þessu starfi ásamt fleirum. Dagmálatjörn var fyrsta tjörnin sem reynt var endurheimta á vegum nefndarinnar.

Frá austurhluta Dagmálatjarnar, hávaxin tjarnastör í forgrunni en dekkri sefbreiður af vatnsnál úti í tjörninni. Ljósm. Borgþór Magnússon, 2. júlí 2013.

Dagmálatjörn er ein þriggja Múlatjarna sem eru í  mýri vestan Tungufljóts. Tjörnin liggur austast og var stærst þeirra eða um 25 ha. Við framræslu var grafinn skurður norðaustur úr tjörninni til Tungufljóts. Eftir það var tjörnin aðeins svipur hjá sjón og gréri mestur hluti tjarnarstæðisins upp. Við endurheimt var byggð torfstífla í skurðinn og sett í hana útfallsrör sem markaði vatnsborðhæð tjarnarinnar. Í kjölfarið hækkaði vatnsborð hennar um tæpan metra, vatnsflötur stækkaði og tjarnarstæðið blotnaði allt upp. Fuglalíf glæddist og fjölgaði þar varp- og umferðarfuglum.

Þegar liðin voru 15 ár frá aðgerðunum þótti tilefni til að fara að Dagmálatjörn og kanna hvernig hún hefðist við en allnokkur ár eru liðin frá því land var þar tekið út síðast.

Ástand Dagmálatjarnar 2013

Í byrjun júlí var vatnsborð við yfirfall úr tjörninni en við það er vatnsflötur hennar um 12 ha. Þar umhverfis og í grynnri hluta tjarnarinnar hafa myndast gróskulegar breiður af stör og sefi í gamla tjarnarstæðinu. Í þeim eru tjarnastör, mýrastör og vatnsnál ríkjandi tegundir. Á tjörninni og við hana voru þrjú álftapör og líklegast eitt þeirra í varpi. Þar sáust einnig um 50 rauðhöfðaendur og stokkandarpar. Kríur voru á sveimi yfir tjörninni og stelkur, lóuþræll, skógarþröstur og heiðlóa sáust þegar gengið var með bökkum.  Stíflan í útfalli tjarnarinnar hefur gróið vel og ætti ekki að vera hætta búin í flóðum. Vatn streymdi greiðlega í gegnum útfallsrörið niður til framræsluskurðarins. Þótt vatnsborð tjarnarinnar sé allnokkru lægra en á fyrri tíð, hefur með fremur einfaldri og kostnaðarlítilli aðgerð tekist að færa svæðið í átt til fyrra horfs og skapa þar snotran tjarnarflóa.

Rauðhöfðaendur á flugi yfir Dagmálatjörn, stelkur flögrar nær. Ljósm. Borgþór Magnússon, 2. júlí 2013.
Torfstífla sem sett var í framræsluskurð úr tjörninni 1998. Útfallsrör er í stíflunni sem ákvarðar vatnsborðshæð tjarnarinnar. Ljósm. Borgþór Magnússon, 2. júlí 2013.

Gróðurbreytingar og skógrækt við tjörnina

Land austan við Dagmálatjörn sem úðað hefur verið með plöntueitri (t.v.) til að undirbúa land fyrir skógrækt. Kjarrlendi (t.h.) hefur vaxið upp á mýrinni á undanförnum árum eftir að land var friðað fyrir beit. Ljósm. Borgþór Magnússon, 2. júlí 2013.

Land við Dagmálatjörn sem tekið hefur verið til skógræktar. Kjarr- og mýrlendisgróðri hefur verið eytt með plöntueitri og sitkagreni plantað í landið. Dauð birkihrísla er í forgrunni en loðvíðirinn hefur það betra. Ljósm. Borgþór Magnússon, 2. júlí 2013.