Er pardussnigillinn í okkar liði?


Pardussnigill. Ljósm. Erling Ólafsson.

Gósentíð snigla rennur upp þegar líður á sumar, það tekur að dimma á kvöldin, úrkoma jafnvel að aukast og garðagróður hefur víða vaxið úr sér og fallið í bendur. Þetta er ástand sem hugur snigils girnist öðru fremur.

Undir aldamótin síðustu fór að bera nokkuð á pardussniglum í Grafarvogi. Þeir vöktu athygli vegna stærðar sinnar, en þeir voru ólíkt stærri en aðrir sniglar sem við áttum að venjast. Meira að segja svartsnigillinn stóri mátti sín lítils í samanburðinum. Á skömmum tíma náði pardussnigill að dreifa sér um allt höfuðborgarsvæðið, frá Mosfellsbæ suður í Hafnarfjörð. Hann er nú farinn að nema nýjar lendur og spurðist síðast til hans á Seyðisfirði.

Fólk hefur gjarnan haft ímugust á þessum nýja snigli enda lítið til hátterni hans þekkt. Hann er vissulega ekki frýnilegur þar sem hann rennir sér áfram á meiri hraða en svo að hægt sé að segja það vera að sniglast og teygir úr sér hátt á annan tug sentímetra.

Svo vill til að marga sendinguna höfum við fengið verri frá útlandinu í seinni tíð. Pardussnigill er nefnilega lítill skaðvaldur á gróðri þó stór sé og græðgilegur. Hann lifir einna helst á rotnandi plöntuleifum, sveppum og öðru slíku. Þá er hann vargur mikill í samfélagi snigla. Hann ræðst miskunnarlaust á aðra snigla jafnt stóra sem smáa, drepur þá og étur. Hann hefur m.a. orð á sér fyrir að elta uppi spánarsnigla og leggja til atlögu við þá. Þegar hann rekst á slímtaum eftir slíkan rennir hann sér á eftir honum og leggur til atlögu. Pardussnigill er mun hraðskreiðari en aðrir sniglar og hefur auk þess sterkari bitkjálka til að höggva með í fórnardýrið.

Spá um framgang spánarsnigils hefur engan veginn gengið eftir og hefur það komið á óvart. Ef lífshættir pardussnigils eru hafðir í huga og hve vel honum hefur vegnað er ekki fráleitt að ætla að við stöndum í þessum efnum í þakkarskuld við hann, þ.e. að honum sé það að þakka að spánarsnigill hafi ekki náð sér á strik eins ráð var fyrir gert. Ekki einungis er pardussnigill talinn drepa minni spánarsnigla heldur ku hann einnig vera sólginn í egg þeirra. Ef til vill eiga þessir tveir kumpánar ekki samleið. Það er helst að spánarsniglar hafi fundist í einhverjum mæli á Akranesi undanfarin tvö sumur, en ekki er vitað til þess að pardussnigill hafi borist þangað enn sem komið er. Kannski er skýring í því fólgin.

Fólk er hér með hvatt til að hafa ekki áhyggjur af pardussniglinum og taka honum frekar fagnandi. Hann gæti nefnilega verið samherji okkar og eina náttúrulega vörnin gegn framgangi spánarsnigilsins sem í boði er hér á landi. Ekki eigum við villisvín í görðum okkar! Hann lifi!

Pardussnigill á pödduvefnum