Surtsey
50 ára: Alþjóðleg vísindaráðstefna 12.-15. ágúst í Reykjavík


Surtsey, 5. febrúar 1964.

Til ráðstefnunnar hefur verið boðið fimm, þekktum erlendum fræðimönnum sem flytja munu inngangserindi. Þeir eru Nemesio M. Perez jarðefnafræðingur frá Kanaríeyjum sem hefur m.a. rannsakað neðansjávareldgosið við El Hierro sem hófst haustið 2011; Robert Whittaker prófessor í eyjalandafræði við Oxford háskóla sem víða hefur komið við í rannsóknum sínum á eyjum, lífríki þeirra, tegundamyndun og þróun; Tim New skordýrafræðingur og prófessor emeritus við LaTrobe háskóla í Ástralíu en hann hefur m.a. rannsakað framvindu á Krakataueyjunum í Indónesíu; Stephen C. Jewett sjávarlíffræðingur og prófessor við Alaska-háskóla í Anchorage en hann hefur tekið þátt í rannsóknum á framvindu á Kasatochieyju í Aleutin eyjaklasanum eftir eldgosið þar árið 2008 og Patrick J. Mc Keever jarðfræðingur og forstöðumaður jarðminjaverndar hjá UNESCO í París. Auk þeirra munu þeir Sveinn P. Jakobsson jarðfræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands, Haraldur Sigurðsson jarðfræðingur við Eldfjallasafnið í Stykkishólmi og prófessor ermeritus við Rhode Island-háskólann í Bandaríkjunum og Borgþór Magnússon, vistfræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands fjalla um rannsóknir í Surtsey í inngangserindum. Á ráðstefnunni verða kynnt, í erindum og á veggspjöldum, alls um 60 rannsóknarefni er tengjast Surtsey og öðrum eldfjöllum og eyjum innanlands sem utan.

Rannsóknir í Surtsey hafa staðið óslitið frá því eyjan reis úr sæ árið 1963 og spanna því orðið nær hálfrar aldar sögu. Á afmælisráðstefnunni verður haldið upp á þessi tímamót. Nánari upplýsingar um dagskrá ráðstefnunnar má finna á vef Surtseyjarfélagsins.

Fréttatilkynning á vef Surtseyjarfélagsins