Náttúrufræðistofnun Íslands tók þátt í Akureyrarvöku 2013

Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir sveppafræðingur sýnir sveppi í Vísindasetri á Akureyrarvöku 2013. Fremst er risasveppurinn jötungíma.

Akureyrarvaka er árleg menningarhátíð haldin á Akureyri og að þessu sinni fór hún fram helgina 30. ágúst til 1. september. Í fyrsta sinn í sögu Akureyrarvöku var nú boðið upp á vísindakynningu, s.k. Vísindasetur. Starfsmaður Náttúrufræðistofnunar Íslands á Akureyri, Kristinn P. Magnússon, í samráði við Akureyrarbæ, átti veg og vanda að skipulagningu setursins sem var staðsett í Rósenborgarhúsinu. Efni var safnað saman frá völdum stofnunum af svæðinu, þ.e. Auðlindadeild Háskólans á Akureyri, Náttúrufræðistofnun Íslands, Stjörnu-Odda-félaginu, Stjörnuverinu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Norðurslóðaneti Íslands, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, Vaðlaheiðargöngum, Orkusetri, Íslenskum orkurannsóknum, og Conservation of Arctic Flora and Fauna (CAFF).

Aðsókn var mjög góð en rúmlega fimm hundruð manns heimsóttu Vísindasetrið. Þar af voru 200 manns sem virtu fyrir sér himintunglin í lokuðu rými í átta hollum og komust færri að en vildu. Þarna var boðið upp á efnafræðisýningu með sprengingum og tilheyrandi hvellum og kennslustund í að einangra DNA úr berjum heima í eldhúsi. Einnig voru gestir leiddir í sannleikann um hvernig jarðgöng eru búin til og hvernig má nota ljósvörpu til að veiða fisk úr sjó. En kannski vakti Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, sveppafræðingur Náttúrufræðistofnunar Íslands, mesta athygli með risasveppinn sinn jötungímu sem hún sótti í Hörgárdal. Þá sýndu þeir Hörður Kristinsson fléttur og Pawel Wasowicz háplöntur.

Þátttakendur og aðstandendur Vísindasetur voru sammála um að sýningin hafi tekist vel og hafa aðstandendur Akureyrarvöku þegar óskað eftir að vísindasýning verði árlegur viðburður á hátíðinni. Þannig gefst vísindamönnum tækifæri til að sýna almenningi hvað þeir fást við.