Merkilegar kvikmyndir um gosið í Surtsey komnar í leitirnar

Kvikmyndirnar voru teknar á 8 mm filmu af þeim Þorleifi Einarssyni jarðfræðingi og Gunnbirni Egilssyni starfsmanni hjá Atvinnudeild háskólans og síðar Rannsóknastofnun atvinnuveganna. Þær eru frá upphafi eldsumbrota í Surtsey og eru þær fyrstu teknar 18. nóvember 1963 eða aðeins fjórum dögum eftir að gossins varð vart. Myndirnar eru teknar úr flugvél, af skipi og fyrst eftir að farið var í land í Surtsey. Kvikmyndirnar eru mikilvægar heimildir um gosið og geta nýst við rannsóknir á eldsumbrotum í Surtsey.

Það voru þær Sólveig Jakobsdóttir, barnabarn Gunnbjörns Egilssonar, og Ásta Þorleifsdóttir, dóttir Þorleifs Einarssonar, sem afhentu þeim Hallgrími Jónassyni, formanni Surtseyjarfélagsins, og Jóni Gunnari Ottóssyni, forstjóra Náttúrufræðistofnunar, kvikmyndirnar.