Pöddukvikindi í amerísku spínati

Um er að ræða tegund bjallna sem kallast gúrkuglytta (Diabrotica undecimpunctata). Hún lifir í N-Ameríku, um gjörvöll Bandaríkin og norður til Kanada.  Fyrsta bjallan fannst í spínatpakkningu á Austurlandi, sprelllifandi. Síðan skriðu tvær aðrar úr pakkningum á Laugarvatni og í Reykjavík. Glæst útlit bjallnanna vakti verðskuldaða athygli, gulgrænir skjaldvængir með áberandi svörtum blettum sem fræðiheiti tegundarinnar gefur til kynna (undecimpunctata = með ellefu punkta). Auk þess voru bjöllurnar afar líflegar.

Gúrkuglytta lifir á fjölda matjurta í ræktun. Í mestu uppáhaldi eru þó plöntur af graskersættinni, t.d. gúrka, grasker og vatnsmelóna. Einnig má nefna jarðhnetur, sojabaunir, maís, sætar kartöflur og allskyns grænmeti. Bjöllurnar velja fyrst blómin og skaða þau þannig að ekki þroskast ávextirnir. Svo er sótt á laufblöðin og þau nöguð til skemmda. Lirfurnar leggjast hins vegar á ræturnar, ekki síst á maís. Það gefur því auga leið að gúrkuglytta er skaðvaldur af guðs náð og illa þokkuð þrátt fyrir fagurt útlitið.

Gúrkuglyttan skaðar gróðurinn frá vori til haust, jafnt ofan moldar sem ræturnar. Þær eru mjög frjósamar og verpa hundruðum eggja hver og ein kerlan. Hún er vel fleyg í sumarhitum og dreifir sér ötullega. Gúrkuglytta er varla líkleg til að nema landið okkar og verða til vansa, en þó skal haft í huga að ekki liggja ljósar fyrir allar afleiðingar hlýnandi loftslags.

Gúrkuglytta er tegund af ætt laufbjallna (Chrysomelidae) sem hýsir fjölmargar glæstar og skrautlegar tegundir sem lifa á plöntum og leynast þeirra á meðal fjölmargir skaðvaldar í matjurtaræktun. Íslenskar tegundir eru sárafáar en þar má geta asparglyttu (Phratora vitellinae), nýlegs landnema sem orðin er til vansa í görðum á höfuðborgarsvæðinu.

Það má fræðast frekar um gúrkuglyttu á pödduvef Náttúrufræðistofnunar.