Frjótímasenn að ljúka

Frjótölur grasa hafa mælst undir 10 síðastliðna daga og má því segja að aðalgrastíminn sé að baki.

Í Garðabæ hafa grasfrjó mælst nánast samfellt síðan í byrjun júní. Á þessu tímabili voru aðeins tveir dagar þar sem engin grasfrjó mældust. Hæst fór frjótala grasa í 221 frjó/m3 þann 11. júní. Virðist sem fjórir grastoppar hafi komið í sumar, þar sem frjótala mældist yfir 100. Tveir voru í júní, einn í júlí og sá síðasti þann 11. ágúst, en þá mældist frjótalan 174 frjó/m3. Þrátt fyrir að frjótala grasa sé að mælast lág hafa grasfrjó mælst alla daga í ágúst.

Á Akureyri hafa grasfrjó mælst nánast samfellt síðan 4. júní. Líkt og í Garðabæ voru aðeins tveir dagar á þessu tímabili þar sem engin grasfrjó mældust. Hæst fór frjótala grasa í 345 frjó/m3 þann 24. júlí. Hámark grasafrjóa á Akureyri var í júlí þetta árið, en á tímabilinu 10. júlí til 28. júlí fór frjótala grasa átta sinnum yfir 100. Það sem af er sumri er heildarfjöldi grasfrjóa komin í 2944 frjó/m3 en áður hafði heildarfjöldinn hæst farið í 2488 frjó/m3 árið 2003.

Þrátt fyrir að aðalfrjótími grasa sé að baki munu frjómælingar standa út september eins og venjan er. Mikilvægt er að hafa í huga að meðalháar frjótölur geta enn mælst á góðviðrisdögum, jafnvel fram undir miðjan september.