Ný afmörkun eldstöðvakerfis Bárðarbungu

Skjálftahrina sem hófst í Bárðarbungu 16. ágúst hefur vakið mikla athygli. Skjálftar hafa verið í megineldstöð Bárðarbungu og í upphafi einnig við Kistufell í Dyngjuhálsgosreininni, sem tilheyrir eldstöðvakerfi Bárðarbungu. Flestir skjálftar hafa hins vegar verið við lóðrétta sprungu undir Dyngjujökli. Sprungan opnaðist fyrst við austurjaðar Bárðarbungu og hefur svo smátt og smátt stækkað til norðausturs út fyrir Dyngjujökul og undir Holuhraun.

Holuhraun hefur hingað til verið talið tilheyra eldstöðvakerfi Öskju. Í grein eftir Margaret E. Hartley og Þorvald Þórðarson frá 2013 kemur fram að berggerð og efnasamsetning Holuhrauns er ólík dæmigerðum Öskjuhraunum, en líkist hraunum úr Bárðarbungukerfinu. Þar kemur einnig fram að hraunin eru tvö og líkur að því leiddar að það eldra sé frá 1797 og það yngra sé mögulega frá 1862-64, en þá gaus einnig í Veiðivatnagosrein Bárðarbungukerfisins. Þar rann Tröllahraun sem hefur sömu berggerð og efnasamsetningu og Holuhraun.

Norðvestur af Holuhrauni eru nokkrar gígaraðir í Gígöldum sem einnig hafa verið taldar tilheyra Öskjukerfinu. Krepputunguhraun eru talin upprunnin í Gígöldum og jafnvel Bárðardalshraun einnig. Hraun þessi og eldstöðvar hafa sömu berggerð og Bárðarbungukerfið. Í Gígöldum eru einnig gígar og hraun sömu gerðar og í Öskjukerfinu.

Þetta leiðir hugann að því hvort rétt sé að endurskilgreina afmörkun eldstöðvakerfa á svæðinu. Hér er eldstöðvakerfi skilgreint sem þyrping eldstöðva þar sem skyld bergkvika hefur komið upp á yfirborðið. Holuhraun og stór hluti Gígalda tilheyra greinilega Bárðarbungukerfinu. Ljóst virðist vera að eldstöðvakerfi Bárðarbungu og Öskju skarast á þessu svæði, líkt og eldstöðvakerfi Bárðarbungu og Torfajökuls skarast í nágrenni Landmannalauga.

 

Ítarefni:

Haukur Jóhannesson og Kristján Sæmundsson 2009. Jarðfræðikort af Íslandi. 1:600.000. Höggun. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík (1. útgáfa).

Hartley, M. E. and T. Thordarson 2013. The 1874–1876 Volcano?Tectonic Episode at Askja, North Iceland: Lateral Flow Revisited. Geochem. Geophys. Geosyst., 14, 2286-2309.doi:10.1002/ggge.20151.

Guttormur Sigbjarnarson 1995. Norðan Vatnajökuls III. Eldstöðvar og hraun frá nútíma. Náttúrufræðingurinn 65, 199–212.

Árni Hjartarson 2011. Víðáttumestu hraun Íslands. Náttúrufræðingurinn 81, 37-49.