Válistaplöntur heimsóttar

Plöntutegundirnar 16 sem heimsóttar voru í ár eru allar á válista. Af þeim voru þrjár sem fundust ekki á þekktum fundarstöðum, þ.e. fjallabláklukka (Campanula uniflora), fjallakrækill (Sagina caespitosa) og línstör (Carex brunnescens). Ástæður fyrir hvarfi fjallabláklukkunnar og fjallakrækilsins eru ókunnar en tegundirnar mjög viðkvæmar fyrir hvers kyns breytingum; aðeins örfár plöntur fundust árið 2002. Á svæðinu þar sem línstör fannst árið 2002 er nú mikil beit og af þeim sökum var ekki unnt að greina hvort tegundin er enn til staðar eður ei.

Skeggburkni (Asplenium septentrionale) er ein sjaldgæfasta jurt landsins. Aðeins var vitað um tvær plöntur sem uxu í sömu klettasprungunni á Norðurlandi en Valgarður Egilsson fann þessar plöntur árið 1960. Þrátt fyrir mikla leit höfðu fleiri plöntur skeggburkna ekki fundist á svæðinu þar til í ár. Í lítilli klettasprungu, u.þ.b. hálfum metra neðan við gamla fundarstaðinn, fannst ný planta.

Naðurtunga (Ophioglossum azoricum) er mjög sjaldgæf og vex aðeins þar sem jarðhita gætir. Plantan er afar viðkvæm fyrir breytingum á jarðhitasvæðum og er hún til að mynda orðin útdauð við Reyki í Fnjóskadal en þar hafa orðið miklar breytingar í kjölfar borana á svæðinu. Í Mývatnssveit óx naðurtunga á afmörkuðu svæði árið 2002 en nú fundust þar engar plöntur. Virðist sem gufuútstreymi sem var á svæðinu sé hætt og því ekki lengur til staðar þau vaxtarskilyrði sem tegundin þarfnast til að þrífast. Hins vegar fannst hún tegundin á nýjum stað skammt frá og virðist hún því eiga fremur auðvelt með að fylgja jarðhitanum.   

Heimsóttir voru þrír vaxtarstaðir rauðberjalyngs (Vaccinium vitis-idaea) á Austfjörðum og í Öxarfirði. Almennt virðist sem vaxtarsvæði rauðberjalyngsins fari stækkandi. Einn vaxtarstað tegundarinnar í Öxarfirði var hins vegar búið að leggja undir skógrækt en það gæti haft mikil áhrif á framgang tegundarinnar þar í framtíðinni.

Aðrar tegundir sem heimsóttar voru fundust allar enn á sínum stað í svipaðri eða meiri útbreiðslu og áður.

 

Hörður Kristinsson, Eva G. Þorvaldsdóttir og Björgvin Steindórsson 2007. Vöktun válistaplantna 2002–2006. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar nr. 50.