Suðrænar vatnaplöntur nema land á Íslandi

01.09.2014
Kransarfi (Egeria densa)
Mynd: Lára Guðmundsdóttir

Kransarfi (Egeria densa).

Staðfest hefur verið að tvær tegundir aðfluttra vatnaplantna, skrúfugras og kransarfi, hafa numið land á Íslandi.

Vatnaplöntur hafa dreifst víða um heiminn og hafa 96 aðfluttar tegundir fundist í Evrópu. Stærstur hluti landnáms hefur átt sér stað í hlýju loftslagi sunnan til í álfunni en aðeins fáar tegundir hafa numið land í Norður- og Austur-Evrópu.

Sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar Íslands hafa nýverið lokið rannsókn sem sýnir fram á að aðfluttar vatnaplöntur geta numið land á norðurhjara (arctic) og í kaldtempraða beltinu (sub-arctic). Tvær tegundir, skrúfugras (Vallisneria spiralis) og kransarfi (Egeria densa), hafa komið sér fyrir hér á landi. Þær hafa fundist í tjörnum með jarðhitavatni á tveimur stöðum á landinu, við Húsavík og í Hveragerði. Vinsælt er að nota plönturnar í fiskabúrum og hefur það stuðlað að dreifingu þeirra víðsvegar um heiminn.

Upprunaleg heimkynni skrúfugrass eru í Asíu, Suður-Evrópu og Norður-Afríku en kransarfi er uppruninn í Brasilíu, Úrúgvæ og Argentínu. Til að staðfesta tegundagreiningu plantnanna var meðal annars notast við erfðafræðilegar aðferðir. Gen sem finnast í grænukornum háplantna var raðgreint og niðurstöður bornar saman við gögn úr alþjóðlegum gagnabanka (Genbank). Þetta skref var sérstaklega mikilvægt því með hefðbundinni tegundagreiningu er eingöngu hægt að aðgreina skrúfugras frá náskyldri, norðuramerískri tegund út frá blómskipan, í hvorugri tjörninni fundust hins vegar blómstrandi eintök.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru nýverið birtar í tímaritinu New Journal of Botany sem gefið er út af grasafræðifélagi Bretlands og Írlands. Markmið tímaritsins er að vera vettvangur fyrir grasafræðirannsóknir í Norður- og Vestur-Evrópu.

Vegna frekari upplýsinga má hafa samband við Pawel Wasowicz og Láru Guðmundsdóttur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.

 

P. Wasowicz, E.M. Przedpelska-Wasowicz, L. Guðmundsdóttir og M. Tamayo 2014. Vallisneria spiralis and Egeria densa (Hydrocharitaceae) in arctic and subarctic Iceland. New Journal of Botany 4: 85-89. http://dx.doi.org/10.1179/2042349714Y.0000000043

Skrúfugras (Vallisneria spiralis)
Mynd: Lára Guðmundsdóttir

Skrúfugras (Vallisneria spiralis).