Nýtt gróðurkort af Skorradalshreppi

22.10.2014
Afhending gróðurkorts af Skorradalshreppi
Mynd: Anna Sveinsdóttir
Jón Gunnar Ottósson forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands afhendir Árna Hjörleifssyni oddvita Skorradalshrepps nýtt gróðurkort af sveitarfélaginu.

Náttúrufræðistofnun Íslands, í samvinnu við Skorradalshrepp, hefur unnið nýtt gróðurkort af landi sveitarfélagsins vegna viðbragðsáætlunar um gróðurelda. Gróðurkortið nær yfir allt land Skorradalshrepps að undanskildu fjalllendi ofar en 300 m y.s.

Nýja gróðurkortið er í mælikvarða 1:25.000. Það verður fyrst og fremst nýtt til skipulagningar mótvægisaðgerða gegn gróðureldum, einkum með tilliti til mismunandi eldsmats í gróðurfélögum. Það verður notað sem undirstaða margra annarra mikilvægra þátta sem horft er til í því skyni að minnka hættu á gróðureldum í Skorradal. Kortið er einnig heimild um núverandi gróðurfar og nýtist það vel við hvers kyns skipulagsvinnu, umhverfisvöktun og rannsóknir í dalnum.

Kortlagða svæðið er alls um 115 km² að flatarmáli og nær gróið land yfir 82%. Lítt eða ógróið land nær yfir 18%, þar af er vatn rúmir 16 km² eða 14% af kortlagða svæðinu.

Samkvæmt gróðurkortinu er 41 gróðurfélag á láglendi Skorradalshrepps og eru þau dregin saman í 15 gróðurlendi.

Gróðurkortið er byggt á grunni fyrirliggjandi gagna RALA. Gömul kort voru endurskoðuð og teiknuð á stafrænan hátt með hliðsjón af nýjustu loftmyndum frá Loftmyndum ehf. og innrauðum Spot 5 gervitunglamyndum. Ræktaður skógur á nýja kortinu er byggður á gögnum Skógræktarinnar ríkisins.

Gróðurkortið var afhent við formlega athöfn 17. október síðastliðinn.

Sýnishorn af gróðurkorti í Skorradalshreppi

Sýnishorn af gróðurkorti í Skorradalshreppi.