Risahvannir í íslenskri náttúru

Tegundirnar sem um ræðir eru bjarnakló, Heracleum mantegazzianum, og tröllakló, H. persicum. Líta má á tilvist tegundanna sem ógn við náttúruleg vistkerfi því þær breiðast yfir innlendan gróður á auðveldan hátt. Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að þar sem risahvannir hafa náð kjölfestu hefur fjölbreytileika og þéttleika innlendra tegunda hnignað verulega.

Fyrir utan þetta eru risahvannir eitraðar og getur fólki stafað bein hætta af þeim. Komist safi plantnanna í snertingu við húð getur myndast alvarlegur bruni í sólarljósi. Því er það sérstaklega slæmt ef þær ná fótfestu á svæðum þar sem börn leika sér.

Að losna við risahvannir er langtímaverkefni og er mikilvægt að ráðast af fullum krafti í eyðingu þeirra sem fyrst.

Nánari umfjöllun um risahvannir

Þeim sem vilja koma á framfæri upplýsingum um vaxtarstaði risahvanna er bent á netfangið agengartegundir@ni.is. Einnig eru ráðleggingar um eyðingu risahvanna fúslega veittar.