Hvað er að bögga okkur – Pöddupúlsinn tekinn á þjóðinni

17.04.2015
Hamgæra (Reesa vespulae)
Mynd: Erling Ólafsson
Hamgæra er sú tegund sem oftast er komið með til Náttúrufræðistofnunar Íslands í greiningu.

Hvaða smádýr eru einna helst að bögga íslenska þjóð? Svar við þessari spurningu má finna í gögnum sem haldið er til haga á Náttúrufræðistofnun Íslands en næstkomandi miðvikudag, 22. apríl kl. 15:15, mun Erling Ólafsson skordýrafræðingur rýna í gögnin á Hrafnaþingi.

Lagðar eru til grundvallar gagnaskráningar 25 ára tímabils, 1989 til 2014, alls 16.114 færslur. Gerð verður grein fyrir þeim hvötum sem hafa dregið fólk til Náttúrufræðistofnunar með pöddur sínar. Gögnin verða skoðuð frá ýmsum sjónarhornum. Sýnt verður hvernig fyrirspurnir dreifast á sveitarfélög og landshluta, ár og mánuði. Algengustu tegundir verða kynntar, einnig allir ættbálkar smádýra sem koma við sögu og hvaða tegundir þeirra eru algengastar.

Útdráttur úr erindinu
 

Hrafnaþing er haldið í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar að Urriðaholtsstræti 6-8 í Garðabæ, í Krummasölum á 3. hæð.

Hrafnaþing er opið öllum. Verið velkomin!