Frjótölur undir meðaltali

Á Akureyri kom fyrsta birkifrjókornið í gildruna þann 13. apríl og í kjölfarið komu nokkur til viðbótar. Síðan sást ekkert birkifrjó fyrr en undir lok mánaðar, þann 30. maí, þegar tvö korn mældust. Frjótölur birkis gætu því orðið háar í júní. Grasfrjó eru einnig fá enn sem komið er enda er frjótala grasa yfirleitt fremur lág fram í miðjan júní. Tvö grasfrjókorn komu í gildruna í maí, dagana 24. og 30. maí.

Frjótala á Akureyri fór þrisvar yfir 10 frjó/m3 í maí. Í eitt skiptið voru það lyngfrjó sem um ræddi og í hin tvö skiptin asparfrjó.

Í Urriðaholti í Garðabæ kom birkifrjó aðeins einu sinni fyrir í maí, 17. dag mánaðarins. Frjótími birkis er því nánast allur eftir og gætu frjótölur rokið upp í júní. Frjótala hefur ekki enn farið yfir 10 frjó/m3. Grasfrjó hafa ekki mælst í Garðabæ það sem af er vori.

Hugsanlega mun birkifrjótímabilið dragast þar til grösin fara af stað um miðjan júní og tímabilin gætu því skarast. Mikilvægt er fyrir þá sem hafa frjókornaofnæmi að sláttur sé hafinn tímanlega áður en grösin fara að dreifa frjóum sínum. Með því má draga verulega úr fjölda grasfrjóa í lofti.

Fréttatilkynning frá Náttúrufræðistofnun Íslands, 4. júní 2015