Mítlar húkka sér far með ferðamönnum frá Bandaríkjunum

Nú í byrjun júní kom íslensk kona heim frá Virginíu á austurströnd Bandaríkjanna og uppgötvaði hrúðurblett á kviðnum. Þegar hún hafði kroppað blettinn af komu í ljós spriklandi fætur. Komið var með kvikindið til Náttúrufræðistofnunar og kom þá í ljós að um var að ræða svokallaðan stjörnumítil (Amblyomma americanum) sem finnst í mið- og austurríkjum Bandaríkjanna. Þetta er í annað skipti sem tegundin er greind hér á landi. Hið fyrra (2014) var í hársverði barns sem einnig kom heim frá Bandaríkjunum.

Stjörnumítill er auðþekktur á áberandi sanseruðum hvítum stjörnubletti á baki, þ.e. fullþroska kvendýrið. Í Bandaríkjunum er hann sækinn á mannfólkið sem og önnur spendýr af ýmsu tagi og jarðbundna fugla. Hann ber ekki með sér Lyme disease eins og skógarmítill getur gert, en getur haft upp á ýmsa aðra alvarlega kvilla að bjóða, bæði bakteríur og veirur. Umfjöllun um stjörnumítil og þá sýkla helsta sem hann getur borið í blóðgjafa sína.

Fyrir tæpum mánuði síðan fann móðir rakkamítil (Dermacentor variabilis) í hársverði sjö ára dóttur sinnar en þær höfðu einnig dvalið í Bandaríkjunum, m.a. á heimili þar sem hundar voru meðal fjölskyldumeðlima. Þetta tilfelli rataði í fjölmiðla. Rakkamítill leitar einnig á ýmis spendýr, villt sem alin, en hundar eru í hæstu vegum hafðir. Hann getur einnig borið í blóðgjafa sína dágott safn sýkla. Af rakkamítli eru sex tilvik skráð hér á landi.

Það skal ítrekað að líkur á að verða fyrir sýkingum eru litlar, en allur er varinn góður. Mikilvægt er að fjarlægja mítla sem hafa fest sig í húðinni sem fyrst og gera það rétt. Best er að nota til þess sérstök áhöld sem grípa utan um munnlimina fremst á hausnum og skrúfa kvikindin varlega út úr húðinni. Alls ekki má kreista búkinn og toga mítilinn út. Ef það er gert er hætta á að sýklum sé sprautað úr búk mítilsins inn í stungusárið. Þó líkur á sýkingum séu hverfandi er mælt með því að þeir sem í þessu lenda leiti til læknis og biðji um sýklalyfjakúr.

Þess skal getið að mikilvægt er að sá sem fær á sig mítil fái tegundina greinda. Mismunandi tegundir bera mismunandi gerðir sýkla og gott er að vita hvaða sýkingum rétt sé vera á varðbergi fyrir. Hægt er að fá þá greinda á Náttúrufræðistofnun Íslands og á Keldum. Það er einnig mikilvægt að fá eintök til rannsókna til að skrá sögu tegundanna hér á landi sem best. Læknar og dýralæknar sem fjarlægja mítla af skjólstæðingum sínum eru hvattir til að hafa þetta í huga.