Alþjóðleg ráðstefna um jarðminjavernd: VIII International ProGEO Symposium

25.08.2015
ProGeo
ProGEO

Dagana 8. til 12. september næstkomandi verður haldin í Reykjavík alþjóðleg ráðstefna um vernd jarðminja (International ProGEO Symposium). Það eru evrópsku samtökin ProGEO sem standa fyrir ráðstefnunni undir yfirskriftinni „Geoconservation strategies in a changing world“. Þetta er í áttunda skipti sem ráðstefna af þessu tagi er haldin og nú í fyrsta skipti á Íslandi.

ProGEO-samtökin voru stofnuð árið 1988 með það að markmiði að vekja athygli á merkum jarðminjum og efla verndun þeirra. Jarðminjar er samheiti yfir allar jarðfræðilegar myndanir og mótanir; berg, steindir, steingervingar og landslag. Flestar auðlindir jarðar tengjast jarðminjum og rask á þeim eru óafturkræft. Ísland hefur mikla jarðfræðilega sérstöðu og hér finnast jarðminjar sem eru merkar á heimsvísu.

Á ráðstefnunni verða gestir frá 24 löndum sem kynna yfir 50 verkefni með erindum og á veggspjöldum. Í lok ráðstefnudags þann 9. september verða hringborðsumræður (Round table) með hélstu sérfræðingum í jarðminjavernd, meðal annars frá ProGEO og IUCN. Dagana fyrir og eftir ráðstefnuna er boðið upp á jarðfræðiferðir um Reykjanesskaga og Suðurland. Vonir eru bundnar við að ráðstefnan í Reykjavík verði til þess að vekja athygli almennings, fræðimanna og stjórnvalda hér á landi á mikilvægi þess að vernda jarðminjar og landslag á Íslandi.

Undirbúningur ráðstefnunnar hefur verið í höndum Náttúrufræðistofnunar Íslands, Jarðfræðafélags Íslands, Landverndar, Jarðvísindastofnunar, Umhverfisstofnunar og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Ráðstefnan verður haldin á Hótel Reykjavík Natura og er öllum opin. Dagskrá og frekari upplýsingar um ráðstefnuna er að finna á skráningarsíðu.