Dánarvottorð afturkallað

11.09.2015
Húsageitungur - Vespula germanica
Mynd: Erling Ólafsson
Drottning húsageitungs sem slæddist til landsins með innfluttum drykkjarvörum í desember 2011. Ljósm. Erling Ólafsson.

Fyrir skömmu bárust fáeinir geitungar inn um glugga á fjórðu hæð blokkar í vesturbæ Reykjavíkur. Það er í sjálfu sér ekki í fréttir færandi nema fyrir það að einn geitunganna reyndist vera húsageitungur, en hann hefur ekki fundist með vissu síðan 2007. Því hafði verið gefið út dánarvottorð á tegundina hér á landi. Það skal nú afturkallað í bili.

Geitungar höfðu tiltölulega hægt um sig í sumar. Trjágeitungar eru nú horfnir af vettvangi en stöku holugeitungar sýna sig ennþá. Það styttist í þann síðasta. Fólk er almennt á þeirri skoðun að geitungar hafi oft áður verið til meiri leiðinda en þetta sumarið. Geitungavorið kom seint eins og önnur vorkoma og höfðu geitungarnir því skamman tíma til að þroska sín bú til lokastigs. Trjágeitungar létu það þó ekki aftra sér svo neinu nam enda í ágætum málum víða um land. Holugeitungar þurfa hins vegar lengri tíma til ráðstöfunar. Þeir áttu erfiða tíð á síðastliðnu ári og voru því illa undir það búnir að takast á við vorkuldana. Þeir mega illa við því að maí falli út af dagatalinu.

Húsageitungar áttu sitt blómaskeið hér á áratugnum fyrir aldamótin. Síðan fór þeim hratt fækkandi. Undir það síðasta var þá helst að finna í vesturbæ Reykjavíkur og síðasta búið fannst þar 2007. Nokkrum árum síðar var gefið út dánarvottorð á tegundina og töldu margir að farið hefði fé betra. Í raun hefði húsageitungur aldrei átt að setjast hér að. Ísland var talið utan við æskileg heimkynni húsageitungs sem kýs vinveittara loftslag á suðlægari slóðum. Það var því virkilega óvænt að þerna húsageitungs skyldi spilla heimilisfriði í vesturbæ Reykjavíkur nú haustið 2015. Kannski á hann sér framtíð hér á ný með hlýnandi loftslagi.

Húsageitungur