Gróðurbreytingar á Íslandi greindar með fjarkönnun

15.09.2015
Leitni í árlegum, hámarks gróðurstuðli fyrir landsvæði á norðurslóðum 1982–2010
Mynd: M. Raynolds o.fl.
Leitni í árlegum, hámarks gróðurstuðli fyrir landsvæði á norðurslóðum 1982–2010, samkvæmt AVHRR GIMMS NDVI3g gervitunglagögnum frá NOAA. Tekið úr grein M. Raynolds og félaga 2015.

Gögn frá gervituglum hafa verið notuð til að skoða gróðurbreytingar á Íslandi síðustu þrjá áratugi. Í ritinu „Remote sensing“ birtist nýverið grein um niðurstöðu rannsóknarinnar.

Greinin nefnist Warming, sheep and volcanoes: Land cover changes in Iceland evident in sattelite NDVI trends, en höfundar hennar eru Martha Raynolds frá Alaska-háskóla í Fairbanks og Borgþór Magnússon, Sigmar Metúsalemsson og Sigurður H. Magnússon við Náttúrufræðistofnun Íslands.

ervitunglagögn fyrir tímabilið 1982–2010 benda til að gróður á norðurslóðum hafi aukist verulega, einkum umhverfis Norður-Íshaf. Rannsóknir á jörðu hafa einnig stutt þetta og er meginorsök rakin til hlýnandi loftslags. Þegar Ísland er skoðað í stóra samhenginu kemur jafnframt í ljós að landið er meðal þeirra svæða þar sem gróska hefur aukist hvað mest á þessu tímabili. Í rannsókn þeirra M. Raynolds og félaga voru kannaðar nánar breytingar á gróðurstuðlum fyrir Ísland tímabilin 1982–1989, 1990–1999 og 2000–2010 (GIMMS-gögn frá NOAA) og einnig 2002–2013 (MODIS-gögn frá NASA). Leitað var skýringa á orsökum breytinga.

Niðurstöðurnar benda til að gróður hér á landi hafi aukist mest 1982–1989 og er það rakið til stórfelldrar fækkunar sauðfjár. Gróska landsins eykst áfram 1990–1999 en heldur minna. Þá er búfjárfjöldi í högum jafnari en loftslag heldur hlýrra en á undangengnu tímabili. Árin 2000–2010 ber hins vegar svo við að það hægir á breytingum. Gróðurstuðlar fyrir landið eru að vísu mun hærri en á fyrri tímabilum en leitnin er fremur niður á við en hitt, þrátt fyrir að loftslag sé hlýrra en áður hefur verið. Modis-gögn fyrir árin 2002–2013 benda einnig til hins sama. Það eru einkum á landgræðslu- og skógræktarsvæðum sem veruleg aukning gróðurs kemur fram á þessu tímabil, en dæmi um það eru Bakkasandur, Sólheimasandur, Mýrdalssandur, Kelduhverfi, Hólasandur, land við Húsavík og upp af höfuðborgarsvæðinu þar sem lúpína hefur breiðst mjög út og trjágróður aukist. Þrjú svæði skera sig úr hvað varðar rýrnun eða tap á gróðri. Það er annars vegar land sem fór undir Hálslón árið 2006–2007 en hins vegar land þar sem aska féll í gosinu í Eyjafjallajökli 2010 og í Grímsvötnum 2011. Við Eyjafjallajökul er skugginn af öskunni mestur á heiðunum sunnan og suðaustan jökuls en við Grímsvötn á heiðum og í byggð við suðvesturjaðar Vatnajökuls.

Áhrif öskufalls á lífríki í Vestur-Skaftafellssýslu eftir Grímsvatnagos, frétt frá júní 2011

Hægari aukning gróðurs á norðurslóðum eftir 2000 þrátt fyrir hlýrra loftslag er ekki einsdæmi fyrir Ísland. Á strandsvæðum í norðanverðri Skandinavíu hafa komið fram sömu vísbendingar og eru þær m.a. raktar til umhleypingasamari tíðar að vetrarlagi sem eykur álag á gróður og einnig til aukningar skordýrastofna sem herja á plöntur að sumarlagi og valda skemmdum. Hér á landi hefur búfé í högum heldur fjölgað á síðustu árum og er líklegt að það komi fram í grósku landsins.

Rannsókn sú sem greinin er afrakstur af hófst árið 2011 er Martha Raynolds dvaldi hér á landi í rannsóknaleyfi við Náttúrufræðistofnun:

Gervitungl greina verulega aukningu gróðurs á Íslandi, frétt frá maí 2011