Kóngasvarmar í heimsókn

17.09.2015
Kóngasvarmi frá Harrastöðum í Dölum, 25. ágúst 2015
Mynd: Erling Ólafsson
Kóngasvarmi frá Harrastöðum í Dölum, 25. ágúst 2015.

Kóngasvarmi er risastórt fiðrildi sem berst hingað árlega frá Suður-Evrópu, einkum í seinnihluta ágúst og í september. Hann er gæddur mikilli flökkunáttúru. Fæstir trúa sínum eigin augum þegar kóngasvarma ber fyrir augu, halda jafnvel að þar fari smáfuglar og kettir veiða þá sem mýs!

að kemur varla svo haust að ekki berist fregnir af kóngasvörmum sem borist hafa til okkar með vindum yfir hafið frá Suður-Evrópu. Stundum segir af einum eða fáeinum, stundum af umtalsverðum fjölda víða um land. Að þessu sinni virðist nokkur fjöldi hafa borist til landsins. Það fréttist af fyrsta kóngasvarma haustsins vestur í Dölum 25. ágúst og síðan hverjum á fætur öðrum: Borgarnes, Ölfus, Grímsnes, Selfoss, Heimaey, Landbrot, Skaftafell, Höfn og Mývatnssveit.

Margan manninn hefur rekið í rogastans þegar svermandi kóngasvarma hefur borið fyrir augu. Oftar en ekki þarf að sannfæra fólk um að þar fari fiðrildi en ekki fuglar, jafnvel leðurblökur! Hefur stundum þurft að beita sannfæringakrafti til að snúa fólki  því af villum síns vegar. Minnisstæð er saga af kólibrífugli undir Eyjafjöllum. Tilkynnanda varð fyrst snúið þegar hann lýsti því hvernig kólibrífuglinn rúllaði upp löngum, mjóum goggnum eftir að hafa dregið til sín blómasafa!

Þeim sem eiga blómstrandi og ilmandi skógartopp í garði sínum skal ráðlagt að líta út í kvöldmyrkrinu þessa dagana og kanna hvort ekki séu þar þessar glæsiskepnur svermandi kyrrstæðar í loftinu eins og kólibrífuglar með langan sograna sinn á kafi ofan í blómi. Það er stórkostleg sjón undir norðurljósahimni!

Kóngasvarmi