Spánarsniglarnir láta loksins sjá sig

Ólíkt því sem búist var við létu spánarsniglar ekkert á sér kræla í sumar. Gengi þeirra hefur heldur verið á uppleið undanfarin sumur en í ár var örvænting farin að hreiðra um sig, því ekkert bólaði á sniglunum. En loksins er það komið í ljós, þeir höfðu það af!

Nokkrar spurningar brenna jafnan á vörum fólks þegar smádýrin koma við sögu. Hvað er að frétta af spánarsniglunum í sumar? Sú spurning er borin upp af og til bæði af almenningi og fjölmiðlum. Ekki brást fyrirspurnin þetta sumarið frekar en hinn fyrri. Hins vegar virtust sniglarnir ætla að bregðast að þessu sinni. Oftast hafa þeir gert vart við sig síðsumars, en ágúst leið að þessu sinni svo og september og engir sýndu sig spánarsniglarnir með vissu. Langdregnum kuldum þetta vorið var um kennt, eða þakkað, því ekkert er svo slæmt að ekki fylgi því eitthvað gott. Gælt var við þá hugmynd að óhagstætt árferðið framan af sumri hefði riðið sniglunum að fullu.

Það hefur nú reynst fullgott til að vera satt. Þann 22. október bárust Náttúrufræðistofnun Íslands þrír rauðir sniglar í flösku en þeir höfðu fundist daginn áður á óræktarbletti á mótum Sæbrautar og Héðinsgötu. Kalda vorið hafði vissulega áhrif á margt í lífríkinu þetta sumarið og urðu umtalsverðar tafir á margri framvindunni. Allt hefur samt skilað sér seint um síðir. Sem sagt, köld veðráttan síðastliðið vor dugði ekki til að koma spánarsniglunum út af kortinu en varð þeim augljóslega ekki til framdráttar. Verra þarf til ef duga skal.

Spánarsnigill