Tillögur um rjúpnaveiði 2015

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur metið veiðiþol rjúpnastofnsins 2015 og sendi niðurstöðurnar til umhverfis- og auðlindaráðherra þann 28. september síðastliðinn. Stofnunin leggur til að ráðlögð rjúpnaveiði í haust verði 54 þúsund fuglar. Stofnunin leggur mikla áherslu á að hvergi verði slakað á í þeirra viðleitni að draga sem mest úr heildarafföllum rjúpunnar.

Viðkoma rjúpunnar var metin með talningum í tveimur landshlutum síðsumars. Hlutfall unga reyndist vera 75% á Norðausturlandi og 74% á Suðvesturlandi og telst það vera lélegt en skýrist af köldu vori og hretviðrasömu sumri.

Rjúpnastofninn er í niðursveiflu víðast hvar annars staðar en á Norðausturlandi. Reiknuð heildarstærð varpstofns rjúpu vorið 2015 var metin 187 þúsund fuglar. Framreiknuð stærð veiðistofns 2015 er 620 þúsund fuglar miðað við að hlutfall unga á veiðitíma sé 75%. Þessir útreikningar byggja á gögnum fyrir Norðausturland og ofmeta stærð stofnsins nær örugglega.

Miðað við niðurstöður rjúpnatalninga í Hrísey og á Kvískerjum, sem ná allt aftur til ársins 1963, er árið 2015 um það bil það þrítugasta lakasta miðað við 100 ár. Rjúpnafjöldinn á þessu ári er vel undir meðallagi miðað við síðustu 50 ár.

Umhverfis- og auðlindaráðherra ákvað haustið 2013 að rjúpnaveiðitíminn yrði 12 dagar næstu þrjú ár, nema eitthvað óvænt kæmi upp á. Niðurstöður Náttúrufræðistofnunar Íslands sýna í sjálfu sér ekkert óvænt en stofninn er í niðursveiflu.

Útreikningar Náttúrufræðistofnunar Íslands á ráðlagðri veiði upp á 54 þúsund fugla miðast við að áhrif veiða séu ekki önnur en þau að veiðiafföll bætast að fullu við náttúruleg afföll.

 

Greinargerð um veiðiþol rjúpnastofnsins 2015 (pdf, 116 KB)

Bréf til umhverfisráðherra (pdf, 92 KB)