Hörður Kristinsson sæmdur riddarakrossi

Á nýársdag sæmdi forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, ellefu íslenska ríkisborgara riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Þar á meðal var Hörður Kristinsson grasafræðingur sem var sæmdur orðunni fyrir rannsóknir og kynningu á íslenskum gróðri.

Hörður Kristinsson hefur verið afkastamikill fræðimaður á sviði grasafræði í rúmlega hálfa öld og eftir hann liggja tæplega 150 ritsmíðar á því sviði. Hann starfaði við Náttúrugripasafnið á Akureyri og Lystigarð Akureyrar á árunum 1970–1977, var prófessor í grasafræði við Háskóla Íslands 1977–1987 og stýrði Náttúrufræðistofnun Norðurlands, síðar Akureyrarsetri Náttúrufræðistofnunar Íslands, 1987–1999. Eftir það var hann sérfræðingur hjá stofnuninni þar til hann fór á eftirlaun árið 2007.

Hörður byggði upp og viðhélt gagnagrunni um útbreiðslu plantna á Íslandi sem er grundvöllur að þekkingu okkar á útbreiðslu íslenskra blómplantna og byrkninga. Í gagnagrunninum eru varðveittar meira en 500 þúsund færslur sem vísa til sýna í plöntusöfnun Náttúrufræðistofnunar Íslands eða skráninga á vettvangi. Frá upphafi voru vettvangsskráningarnar miðaðar við 10×10 km reitakerfi sem Hörður hannaði, ásamt Bergþóri Jóhannssyni mosafræðingi. Ekki síður mikilvægt er framlag Harðar til þekkingar á íslenskum fléttum en hann hóf fyrir alvöru rannsóknir á þeim þegar hann dvaldi við Duke-háskóla í Bandaríkjunum 1967–1970.

Hörður hefur ávallt verið ötull alþýðufræðari. Verk hans „Plöntuhandbókin“ er afar ítarleg og vönduð handbók um flóru Íslands. Bókin kom fyrst út árið 1986 og hefur verið endurútgefin nokkrum sinnum, síðast í endurskoðaðri útgáfu árið 2012. Hann hefur einnig haldið úti vefnum Flóra Íslands – Flora of Iceland  þar sem eru upplýsingar, myndir og útbreiðslukort af öllum tegundum æðplantna á Íslandi og mörgum tegundum mosa, fléttna, sveppa og þörunga. Nú síðast vann hann, í samvinnu við Sigmund H. Brink hjá Landbúnaðarháskóla Íslands, smáforrit fyrir snjallsíma. Það er plöntulykill sem þykir mjög aðgengilegur í notkun og hefur notið mikilla vinsælda.

Auk þessa kom Hörður á fót Flóruvinum árið 1998, sem er vettvangur fyrir áhugafólk um plöntur. Á þeim vettvangi hefur hann gefið út fréttablaðið Ferlaufung þar sem birtur er ýmiss konar fróðleikur um plöntur, meðal annars er greint frá nýjum tegundum og fundarstöðum. Undir hatti Flóruvina skipulagði Hörður „Dag hinna villtu blóma“ á Íslandi en þar er almenningi boðið til plöntuskoðunar undir leiðsögn. Dagurinn hefur verið haldinn samtímis víða um land á hverju sumri frá 2004, síðast á 10 stöðum árið 2014 en um norrænan viðburð er að ræða sem haldinn er samtímis á öllum Norðurlöndunum. 

Náttúrufræðistofnun Íslands telur Hörð vel að hinni íslensku fálkaorðu kominn og óskar honum innilega til hamingju með viðurkenninguna.