Fuglamerkingar 2015

Fuglar hafa verið merktir á Íslandi síðan árið 1921 og fer Náttúrufræðistofnun Íslands með umsjón fuglamerkinga. Alls hafa verið merktir 680.720 fuglar af 154 tegundum, mest af snjótittlingi eða rúmlega 80 þúsund fuglar.

Á vef stofnunarinnar hefur verið birt skýrsla um fuglamerkingar 2015. Mest var merkt af skógarþresti, 1683 fuglar. Þar á eftir komu 1453 kríur, 1134 lundar, 987 auðnutittlingar og 943 ritur. Ein tegund var merkt í fyrsta sinn hér á landi, ljóshöfðaönd, Anas americana.

Frá upphafi merkinga hafa verið skráðir 55.285 endurfundir merkja. Árið 2015 var óvenju mikið tilkynnt um endurheimtur og álestra á merki á lifandi fuglum. Alls bárust 2365 tilkynningar um endurheimtur íslenskra merkja og komu 154 þeirra erlendis frá. Algengastir voru auðnutittlingar eða 1636 fuglar en þar á eftir komu 172 álftir, 83 sílamáfar, 75 æðarfuglar og 44 snjótittlingar. Fuglar sem endurheimtust með erlend merki voru 71 talsins, mest álft, og voru flest merkin frá Bretlandseyjum.

Árið 2014 var aldursmet súlu slegið og gerðist það aftur árið 2015. Í bæði skiptin var um að ræða súlur sem voru merktar sem ungar í Eldey árið 1982. Fuglinn sem á aldursmetið nú fannst dauður á Orkneyjum í Skotlandi í ágúst síðastliðnum, þá rúmlega 33 ára gamall. Evrópumetið á ennþá bresk súla sem varð 37 ára og 5 mánaða. Þá sást merkt álft við Arndísarstaði í Bárðardal í maí sem var orðin 28 ára og átta mánaða gömul. Þetta kann að vera elsta álft í Evrópu en það hefur ekki fengist staðfest.

Langförulasti fuglinn sem endurheimtur var í fyrra var kría sem merkt var sem ófleygur ungi sumarið 2013 í Óslandi við Höfn í Hornafirði. Hún fannst örmagna við Cape Town, S-Afríku í október síðastliðnum, 11.319 km frá merkingarstað.

Fuglamerkingar 2015