Birkifrjó komin í loftið

Á höfuðborgarsvæðinu voru veðurskilyrði um hvítasunnuhelgina hagstæð fyrir dreifingu birkifrjóa, sólríkt og svolítill vindur. Birkið er nú að byrja að opnast og búast má við frjókornum næstu 3–4 vikurnar, mismikið eftir veðurfari. Fari frjótölur yfir 10–20 frjó/m3 á einum degi má búast við að ofnæmiseinkenna verði vart. Á Akureyri er birkið seinna á veg komið og ekki búist við birkifrjóum þar strax en í hlýindum sem er spáð er í næstu viku gæti birkið þar farið af stað líka.

Frjógildrur verða næst tæmdar föstudaginn 20. maí. Nýjar frjótölur fyrir birki eru birtar á myndrænan hátt á vefnum eftir hverja talningu, 1–2 sinnum í viku. Fyrir neðan myndirnar má sjá hvenær þær voru uppfærðar.