Formleg opnun steypireyðarsýningar á Húsavík

23.05.2016
Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra opnar steypireyðarsýningu á Húsavík í maí 2016
Mynd: Heiðar Kristjánsson
Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra opnar steypireyðarsýningu í Hvalasafninu á Húsavík 18. maí 2016. Þorvaldur Þór Björnsson hamskeri Náttúrufræðistofnunar er þriðji frá vinstri á myndinni.

Miðvikudaginn 18. maí fór fram formleg opnun steypireyðarsýningar í Hvalasafninu á Húsavík. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur lánað safninu grindina til næstu ára.

Beinagrind hinnar 25 metra löngu steypireyðar sem rak á fjöru við Ásbúðir á Skaga hinn 23. ágúst 2010 hefur nú verið sett upp almenningi til sýnis í Hvalasafninu á Húsavík.

Ómæld vinna og kostnaður hefur farið í að verka beinin í sýningarhæft ástand. Þorvaldur Þór Björnsson hamskeri á Náttúrufræðistofnun Íslands hefur haft umsjón með verkefninu frá upphafi. Fjöldi manns hefur lagt hönd á plóg, eins og lýst er í Ársskýrslu 2010 (bls. 26–27) og Ársskýrslu 2015 (bls. 6–8).

Náttúrufræðistofnun Íslands gerði varðveislusamningi við Hvalasafnið í október 2015 og annaðist flutning beinanna til Húsavíkur. Þeir Þorvaldur Þór Björnsson og Þórarinn Blöndal sýningarhönnuður sáu um að koma beinagrindinni fyrir, með dyggri aðstoð heimamanna á Húsavík. Ákveðið var að grindinni yrði sett upp í tilbúinni fjöru á sýningarstað, eins og hvalinn hefði rekið á land og náttúran séð um að hreinsa allt kjöt og spik af beinunum. Gestum er þannig gefinn kostur á að máta sig við stærð steypireyðar í návígi.

Um 40 gestir voru samankomnir við formlega opnun sýningarinnar. Sif Jóhannesdóttir flutti ávarp fyrir hönd stjórnar Hvalasafnsins og einnig tóku til máls þeir Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og Guðmundur Guðmundsson staðgengill forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands. 

Guðmundur Guðmundsson staðgengill forstjóra NÍ flytur ávarv við formlega opnun steypireyðarsýningar á Húsavík í maí 2016
Mynd: Heiðar Kristjánsson

Guðmundur Guðmundsson staðgengill forstjóra NÍ flytur ávarp við opnun sýningarinnar