Frjómælingar í apríl og maí

Á Akureyri kom fyrsta frjókornið í gildruna þann 13. apríl og var þar um að ræða lyngfrjó. Sú tegund var algengust í lofti fram í miðjan maí en eftir það tók aspar-, víði- og birkifrjókornum að fjölga. Fyrsta birkifrjókornið kom í gildruna þann 14. maí og mældust þau síðan samfellt frá og með 23. maí. Eitt grasfrjó mældist þann 28. maí en gera má ráð fyrir að þau verði fá fram í miðjan júní.

Frjótala á Akureyri fór fimm sinnum yfir 10 frjó/m3 í maí. Í þrjú skipti var um að ræða asparfrjó en víði- og birkifrjó í tvö skipti. Heildarfrjótala í apríl var 23 frjó/m3 og í maí 269 frjó/m3.

Í Urriðaholti í Garðabæ kom mældist fyrsta frjókornið þann 9. apríl og var það asparfrjó. Lyngfrjó voru algengust í apríl en í maí voru það víði- og asparfrjó. Fyrsta birkifrjókornið kom í gildruna þann 17. maí og hafa þau mælst samfellt frá 20. maí. Búast má við að aðalfrjótími birkis verði í júní eins og undanfarin ár. Eitt grasfrjó mældist þann 28. maí.

Frjótala í Garðabæ fór nokkrum sinnum yfir 10 frjó/m3 og var þá um að ræða birki-, aspar- og lyngfrjó. Heildarfrjótala í apríl var 48 frjó/m3 og í maí 177 frjó/m3.

Framundan er frjótími birki, grasa og súru en það eru helstu ofnæmisvaldarnir hér á landi. Yfirleitt tekur grastímabilið við af birkitímabilinu en í ár gæti það skarast þar sem birkið hefur farið rólega af stað.

 

Fréttatilkynning um frjómælingar í apríl og maí 2016 (pdf)