Frjómælingar í júní

12.07.2016
Útsprungið fjallafoxgras
Mynd: Lára Guðmundsdóttir
Útsprungið fjallafoxgras.

Mikið mældist af grasfrjókornum á Akureyri í júní miðað við fyrri ár en þó er aðal frjótími þeirra framundan í júlí og ágúst. Birkifrjókorn voru í lágmarki bæði norðan og sunnan heiða.

Í Urriðaholti í Garðabæ voru frjótölur undir meðaltali í maí. Í júní fjölgaði frjókornunum og frjó mældust alla daga mánaðarins og fór frjótala tvisvar yfir 100 frjó/m3, dagana 18. og 28. júní. Samt fór svo að frjótölur voru annan mánuðinn í röð undir meðaltali. Heildarfrjótala júnímánaðar er 800 frjó/m3. Hafa frjókorn einu sinni áður mælst færri í júní síðan mælingar hófust árið 2011 en það var árið 2012. Meðalfrjótala í júní árin 2011-2015 er 1461 frjó/m3.

Á Akureyri mældust frjó alla daga í júní en heildarfrjótala fór samt aldrei yfir 50 frjó/m3. Heildarfrjótala júnímánaðar 2016 er 503 frjó/m3 sem er helmingi minna en í fyrra en meðalfrjótala í júní árin 1998-2015 er 698 frjó/m3. Heildarfjöldi grasfrjókorna var þó langt yfir meðaltali eða 240 frjó/m3 sem er vel yfir meðaltali en meðalfrjótalan í júní árin 1998-2015 er 81 frjó/m3.

Í hlýju og þurru lofti og smá golu dreifast frjókornin helst og þá er best fyrir þá sem hafa frjókornaofnæmi að sleppa því að þurrka þvottinn úti og sofa við lokaðan glugga. Hafa ber í huga að með því að slá grasið fyrir blómgun þá myndast ekki frjókorn. Fari frjótölur grass yfir 10-20 frjó/m3 á einum degi má búast við að ofnæmiseinkenna verði vart en það er þó einstaklingsbundið hversu næmt fólk er ásamt nálægð þess við blómstrandi grasið.

Nánar um frjómælingar.

Fréttatilkynning um frjómælingar í júní 2016 (pdf)