Sveinn Jakobsson jarðfræðingur látinn

22.07.2016
Sveinn P. Jakobsson jarðfræðingur á Eldfelli 2012
Mynd: Lovísa Ásbjörnsdóttir
Sveinn Jakobsson á Eldfelli í Vestmannaeyjum árið 2012

Sveinn Jakobsson jarðfræðingur lést þriðjudaginn 12. júlí síðastliðinn. Hann verður jarðsettur frá Háteigskirkju í Reykjavík í dag, föstudaginn 22. júlí kl. 13. Sveinn var starfsmaður Náttúrufræðistofnunar Íslands frá árinu 1969 þar til hann lét af störfum vegna aldurs árið 2009.

Sveinn Jakobsson varð stúd­ent frá Mennta­skól­an­um í Reykja­vík 1960 og hélt þá til Dan­merk­ur til náms í jarðfræði. Hann var við nám í Kaup­manna­hafn­ar­há­skóla frá 1960-1969 og út­skrifaðist mag.scient. 1969. Hann hlaut doktors­gráðu (dr.scient) frá Kaup­manna­hafn­ar­há­skóla 1980. Sveinn var starfsmaður Náttúrufræðistofnunar frá árinu 1969 og var aðaljarðfræðingur hennar í 40 ár. Hann lét formlega af störfum vegna aldurs árið 2009 en hafði vinnuaðstöðu við stofnunina áfram eftir formleg starfslok og stundaði sínar rannsóknir þar til veikindi tóku í taumana.

Sveinn helgaði líf sitt jarðvísindum sem áttu hug og hjarta hans alla tíð. Var gríðarlega vandvirkur og kröfuharður á gæði og lagði mikla vinnu í allt sem hann gerði. Ritlisti Sveins er langur og merkilegur, sem segir meira en mörg orð um vinnusemina, enda naut hann mikillar virðingar fyrir vísindastörf sín á vettvangi jarðvísindanna.

Rannsóknir Sveins við Náttúrufræðistofnun beindust að bergi og steindum, myndun móbergs og gosvirkni á nútíma. Landið allt var undir, en fyrst í stað beindi hann sjónum aðallega að eystra gosbeltinu. Síðar að vestara gosbeltinu og Surtsey, en hann var kjölfestan í jarðfræðirannsóknum í eyjunni. Hann var fyrstur til að uppgötva myndun móbergs í Surtsey 1969 en þá var almennt talið að móberg myndaðist á mun lengri tíma.

Sveinn kom upp merkilegu og verðmætu steinasafni á starfsferli sínum á stofnuninni, en skipuleg söfnun steinda og bergtegunda var eitt af fyrstu verkum hans. Sveinn fann nokkrar nýjar steindir fyrir vísindin og fékk nokkrar þeirra staðfestar formlega á alþjóðlegum vettvangi sem nýar heimssteindir og var ein nefnd eftir Sveini, Jakobssonít.

Sveinn var mikill náttúruverndarsinni, áhugamaður um friðun svæða og jarðminja og mikill áhuga- og baráttumaður fyrir náttúruminjasafni, sýningarsafni sem veitti sem gleggst yfirlit um náttúru Íslands. Sveinn kenndi bergfræði við Háskóla Íslands. Hélt jafnframt námskeið í bergfræði og steindafræði fyrir stofnanir og félög og flutti fyrirlestra hér og erlendis um jarðfræði. Hann var formaður Íslandsnefndar Aljóðlega jarðfræðisambandsins 1983–2005, varaformaður Ferðafélags Íslands 1980–1987 og í stjórn Norrænu eldfjallastöðvarinnar 1973–1993. Sveinn sat í stjórn Surtseyjarfélagsins 1972–2009 og hélt lengst af utanum starfsemi félagsins.

Sveinn var sérstakur og merkilegur maður, vísindamaður og fagurkeri. Starfsfólk Náttúrufræðistofnunar Íslands saknar Sveins, sem hefur verið óaðskiljanlegur hluti stofnunarinnar í tæpa hálfa öld, virtur vísindamaður, góður félagi og samstarfsmaður.