Nýuppgötvaður framhlaupsjökull á Tröllaskaga

09.09.2016
Vífilsjökull á Tröllaskaga 2016
Mynd: Skafti Brynjólfsson
Vífilsjökull situr í botni Vífilsdals í Svarfaðardal. Sprunginn og fremur úfinn hluti jökulsins sem er til hægri á myndinni hefur hlaupið fram um 50–100 m, líklega á árunum 2011–2013.

Hluti Vífilsjökuls sem er skálarjökull á Tröllaskaga hefur hlaupið fram um 50–100 m og átti það sér líklega stað á árunum 2011–2013. Það rennir stoðum undir þá kenningu að sveiflur framhlaupsjökla tengist ekki veðurfari eða afkomu jökla beint. Þekktir framhlaupsjöklar á þessu svæði eru nú fjórir en athuganir Náttúrufræðistofnunar Íslands benda til að þeir séu fleiri.

Vífilsjökull liggur í botni Vífilsdals er liggur til suðurs úr framhluta Svarfaðardals. Jökullinn er um 0,6 km2 að flatarmáli og er einn af minni smájöklum Tröllaskaga sem eru um 150 talsins. Vífilsjökull og nágranni hans Teigarjökull eru sennilega minnstu framhlaupsjöklar sem lýst hefur verið í heiminum.

Undir lok síðasta vetrar varð bóndi einn í Svarfaðardal var við það í ferðalagi sínu að Vífilsjökull var sérstakur yfir að líta. Á þessum árstíma eru jöklar Tröllaskaga alla jafna sléttir og huldir þykkum vetrarsnjó en nú bar svo við að sprungur í jöklinum voru opnar og landslag óvenjulegt. Á dögunum fór jöklajarðfræðingur Náttúrufræðistofnunar Íslands að jöklinum og kannaði aðstæður.

Könnunin staðfesti grun manna að jökullinn hefði bært á sér. Norðvesturhelmingur jökulsins hefur hlaupið fram um 50–100 m og myndað áberandi 2–5 m háan jökulgarð við jaðar jökulsins. Ljóst þykir að framhlaupinu hafi lokið fyrir um 2–3 árum sem sést best á því að jaðarinn hefur þynnst og nánast slitnað frá jökulgarðinum vegna bráðnunar. Einnig sjást skýr merki dauðísbráðnunar í og við nýmyndaðan jökulgarðinn, en dauðís er jökulís sem er hættur að skríða og fær ekki á sig viðbót. Eftir að framhlaupi líkur tekur það jökuljaðar um 3–5 ár að bráðna frá nýmynduðum jökulgarði. Það er ágætlega þekkt eftir nýlegt framhlaup Búrellsjökuls sem er skammt frá Vífilsjökli.

Efst á Vífilsjökli eru stórar jökulsprungur hálffylltar vetrarsnjó og í jöklinum miðjum er áberandi lægð. Það sýnir að talsvert magn íss hefur skriðið fram, flust frá efra svæði jökulsins og niður í sporð hans. Neðri helmingur þess hluta jökulsins sem hljóp fram er mjög sprunginn og þar eru einnig áberandi hæðir og lægðir á yfirborði. Hinn helmingur jökulsins sem ekki hefur hlaupið fram er hinsvegar ósprunginn, sléttur og auðveldur yfirferðar.

Uppgötvun framhlaups í Vífilsjökli er merkileg fyrir þær sakir að hingað til hafa aðeins þrír framhlaupsjöklar verið þekktir á Tröllaskaga. Núna eru þeir að minnsta kosti fjórir en athuganir Náttúrufræðistofnunnar Íslands benda til að enn fleiri framhlaupsjökla sé að finna á Tröllaskaga. Sveiflur framhlaupsjökla eru alla jafna ekki taldar tengjast kaldara veðurfari eða afkomu jökla beint, sem hinsvegar er raunin í jafngangsjöklum sem ýmist hopa eða ganga fram í takt við veðurfar og afkomu jöklanna. Framhlaup Vífilsjökuls rennir stoðum undir þessa kenningu, því frá síðustu aldamótum hafa jöklar á Tröllaskaga rýrnað eins og flestir jöklar landsins. Þrátt fyrir það hefur Vífilsjökull hlaupið fram sem í raun er í mótsögn við óhagstæða jöklatíð megnið af þessari öld.     

Nánari fróðleikur um jökla og eðli framhlaupsjökla