Hvítabirnan á Hvalnesi

30.11.2016
Hvítabjörn
Hvítabjörn.

Hvítabirnan sem felld var við bæinn Hvalnes á Skaga 16. júlí síðastliðinn var líklega á 12. aldursári. Hún var í góðum holdum, með mjólk í spenum og var búin að vera í nokkurn tíma á landi áður en hún féll.

Hvítabirnan var krufin samdægurs á Náttúrufræðistofnun Íslands. Krufningin leiddi í ljós að birnan var í mjög góðum holdum en um 30% líkamsþyngdarinnar var fita. Hún sker sig þannig frá öðrum hvítabjörnum sem synt hafa hingað til lands frá árinu 2008 en þeir hafa allir verið mjög magrir og fitubirgðir jafnvel gengnar til þurrðar.

Ein vígtönn hvítabirnunnar var brotin. Á framanverðum líkama hennar sáust þrjú sár og gróf í einu þeirra. Einnig var sár í munnviki eftir nýlegan áverka. Líffæri voru að mestu eðlileg.

Aldursgreining og talning á vetrarlínum í sementslagi, sem hleðst utan á rætur tanna, gefur til kynna að birnan hafi verið á 12. ári. Mjólk var í spenum þannig að húnn eða húnar voru á spena þegar sundferðin til Íslands hófst. Húna varð þó ekki vart hér á landi og er líklegt að þeir hafi farist á leiðinni til landsins. Ferðalagið gæti hafa hafist undir miðjan júlí en þá voru jakar að bráðna á hafsvæðinu sunnan við Skoresbysund á Grænlandi og hafís með ströndinni þar suðuraf var að mestu horfinn. Hvítabirnir geta farið um fimm kílómetra á klukkustund í sjó og syndi fullvaxta birnir beinustu leið milli landanna þarf sundið ekki að taka nema nokkra daga.

Rannsóknir á fæðuleifum sýndu að hvítabirnan var búin að vera það lengi uppi á landi að þurrlendisgróður sem hún hafði nartað í ofan fjörumarka var þegar til staðar aftast í ristli. Óljóst er hversu langan tíma það tekur fæðuleifar að fara í gegn um meltingarveginn en það tekur þó örugglega margar klukkustundir. Birnan hafði ekki lagt sér fæðu úr dýraríkinu til munns.

Ævisögu hvítabjarna má lesa úr línum í tannrótum. Þannig má meðal annars sjá hvenær birnur skríða í híði og ala afkvæmi, hvenær þær eru lausar við húnana og hvenær tilhugalíf og mökun á sér stað. Samkvæmt árhringjamynstri Hvalnesbirnunnar hafði hún fjórum sinnum skriðið í híði en einungis í eitt skipti, þegar hún var sex vetra, náð að vera með húnunum þar til þeir komust á þriðja ár og urðu sjálfstæðir. Síðast eignaðist birnan afkvæmi haustið 2015, þau hin sömu og sugu hana áður en sundið til Íslands hófst, þá um 7 mánaða.

Nánari upplýsingar um niðurstöðu krufningarinnar er að finna í skýrslunni „Athuganir á hvítabirnu sem felld var við Hvalnes á Skaga 16. júlí 2016“ sem Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði vann fyrir Náttúrufræðistofnun Íslands og umhverfis- og auðlindaráðuneytið.