Nýju ljósi varpað á stofnbreytingar íslensku rjúpunnar

22.11.2016
Rjúpa, fullorðinn kvenfugl
Mynd: Ólafur K. Nielsen
Rjúpa, fullorðinn kvenfugl í nágrenni Reykjavíkur 2. maí 2015.

Íslenska rjúpan er athvarf og heimili 17 tegunda sníkjudýra, sjö innri sníkjudýra sem flest lifa í meltingarvegi og 10 tegunda ytri sníkjudýra. Þetta kemur fram í nýrri grein sem hefur birst í alþjóðlega vísindaritinu PLOS ONE.

Líkt og margir vita þá er stærð íslenska rjúpnastofnsins mjög breytileg. Stofninn rís og hnígur og að jafnaði hafa verið um 10–12 ár á milli hámarksára. Vitað er að fálkinn er einn af þeim þáttum sem knýja stofnsveifluna en fleiri þættir skipta örugglega máli, til dæmis þættir líkt og fæða og heilbrigði fuglanna. Frá 2006 hefur Náttúrufræðistofnun Íslands staðið fyrir rannsóknum á tengslum heilbrigðis og stofnbreytinga hjá rjúpum. Þetta er samstarfsverkefni stofnunarinnar og fræðimanna við Háskóla Íslands (Tilraunastöð í meinafræði að Keldum, Læknadeild og Raunvísindadeild), Háskólann á Akureyri, Náttúrustofu Norðausturlands, Háskólann í Evenstad á Heiðmörk í Noregi, Háskólann í Tromsö í Noregi og Háskólann í Boise, Idaho, USA. Á hverju ári er 100 rjúpum safnað í fyrstu viku október og gerðar mælingar á ýmsum þáttum sem lýsa heilbrigði fuglanna. Rannsóknirnar fara fram á Norðausturlandi og munu standa í 12 ár og síðasta söfnunin verður haustið 2017.

Doktorsneminn Ute Stenkewitz hefur starfað að rannsóknunum og fjallað um áhrif sníkjudýra á stofnbreytingar. Nú var að birtast grein í fræðiritinu PLOS ONE sem ber titilinn „Host-parasite Interactions and Population Dynamics of Rock Ptarmigan”. Höfundar auk Ute eru Ólafur K. Nielsen, Karl Skírnisson og Gunnar Stefánsson. Í greininni kemur fram að 17 tegundir sníkjudýra herja á íslensku rjúpuna og nær allar rjúpur bera einhver sníkjudýr, sum henni að meinalausu en önnur eru meinbæg. Ein tegund, hnísillinn Eimeria muta, sýndi marktæk tengsl við stofnstærð rjúpunnar, frjósemi og afföll. Þannig reis og hneig smithlutfall E. muta líkt og rjúpnastofninn en með um eins og hálfsárs töf. Beint samband var á milli affalla, frjósemi og holdafars og smittíðni E. muta. Hníslar eru einfrumungar, lifa í slímhúð meltingarvegar og valda hníslasótt sem dregur þrótt úr sýktum fuglum eða drepur þá. Önnur sníkjudýr sem virtust hafa neikvæð áhrif á afkomu rjúpunnar voru naglúsin Amyrsidea lagopi (á frjósemi) og iðraormurinn Capillaria caudinflata (á afföll ungfugla). Greinin er opinn öllum og hana má nálgast á vef PLOS ONE

Karl Skírnisson við sýnatöku í Mývatnssveit í október 2016
Mynd: Aðalsteinn Örn Snæþórsson

Karl Skírnisson við sýnatöku í Mývatnssveit í október 2016.