Særður fálki reyndist vera skotinn

15.02.2018
Særður fálki í haldi að Hnjúki í Vatnsdal 12. febrúar 2018
Mynd: Sigurður R. Magnússon

Fálkinn í haldi að Hnjúki í Vatnsdal 12. febrúar 2018.

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur hlúð að fálka sem fangaður var í Vatnsdal fyrr í vikunni. Fuglinn var særður og gat ekki flogið og við skoðun kom í ljós að hann hafði orðið fyrir haglaskoti. Hann hefur nú verið fluttur í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum til frekari aðhlynningar

Sigurður R. Magnússon frá Hnjúki í Vatnsdal fangaði ófleygan fálkann í Vatnsdal þann 12. febrúar síðastliðinn og vildi koma honum til bjargar. Fyrir milligöngu lögreglunnar á Blönduósi tókst að fá far fyrir fálkann suður til Reykjavíkur kvöldið eftir og þar tók starfsmaður Náttúrufræðistofnunar Íslands á móti fuglinum. Við skoðun á stofnuninni að morgni 14. febrúar kom í ljós að þetta var kvenfálki á þriðja vetri og særður á vinstri væng. Fuglinn var í góðum holdum og vó 1.585 grömm. Röntgenmyndataka á Dýraspítalanum í Víðidal sýndi að vængurinn var óbrotinn en hins vegar kom í ljós að fuglinn hafði lifað af skotárás. Fimm högl voru fálkanum, en þó ekki í væng. Engar blæðingar var að sjá þar sem höglin hafa hæft fuglinn og því hefur skotatlagan mögulega verið gerð löngu áður og hann svo nýlega slasaðast í Vatnsdal.

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur um langt skeið átt í samstarfi við Fjölskyldu- og húsdýragarðinn um að hlúa að særðum og sjúkum ránfuglum sem komast undir mannahendur. Fálkinn var að aflokinni læknisskoðun fluttur í þangað þar sem hann verður uns sárin eru gróin og hann fleygur á ný.

Alkunna er að fálkar hafa verið alfriðaðir á Íslandi í meira en hálfa öld en þrátt fyrir það er ekki einsdæmi að fálkar séu skotnir. Staðreyndin er að um fjórðungur af þeim fálkum sem hafa fundist dauðir á víðavangi og verið krufðir á Náttúrufræðistofnun Íslands síðastliðinn áratug hafa verið skotnir.

Óskiljanlegt er hvað rekur menn til verka af þessu tagi. Hvort sem um er að ræða þekkingarleysi, rótgróna óvild í garð fálkans eða auðshyggju ættu slíkar athafnir aldrei að eiga sér stað.

Röntgenmynd af væng fálka 14. febrúar 2018. Í honum er hagl.
Mynd: Dýraspítalinn í Víðidal

Röntgenmynd frá 14. febrúar 2018 af vinstri væng fálkans, sárið er á framvængnum en á myndinni má sjá að öll vængbein eru heil.

Röntgenmynd af búk fálka 14. febrúar 2018. Í honum eru fimm högl.
Mynd: Dýraspítalinn í Víðidal

Röntgenmynd frá 14. febrúar 2018 af búk fálkans, á myndinni má sjá fjögur högl í búknum og eitt í vinstra fæti.