Afkoma jökla á Tröllaskaga neikvæð jökulárið 2016–2017

27.03.2018
Teigarjökull og Búrfellsjökull á Tröllaskaga
Mynd: Skafti Brynjólfsson

Teigarjökull og Búrfellsjökull á Tröllaskaga.

Ársafkoma jökla á Tröllaskaga var neikvæð jökulárið 2016–2017. Ástæðan er einkum hlýtt sumar og haust árið 2017 og lítil vetrarákoma á jöklana.

Hátt í 150 jöklar eru á Tröllaskaga
Mynd: Skafti Brynjólfsson

Hátt í 150 jöklar eru á Tröllaskaga. Afkoma Hausafannar (1) ofan Dalvíkur, auk Deildardalsjökuls (2) og Búrfellsjökuls og Teigarjökuls (3) í Svarfaðardal hefur verið mæld um nokkurra ára skeið.

Um nokkurra ára skeið hefur Náttúrufræðistofnun Íslands fylgst með og mælt afkomu skálar- og hvilftarjökla í Svarfaðardal á Tröllaskaga, með dyggri aðstoð heimamanna. Afkoma jöklanna er býsna breytileg sem líklega skýrist að talsverðu leyti af áhrifum mismunandi landslags umhverfis jöklana á afkomu hvers og eins þeirra. Síðastliðinn vetur var jöklum óhagstæður á Tröllaskaga. Snjór var lítill til fjalla, bæði vegna minni snjókomu en vanalega og kröftugum vetrarhlákum. Þá var sumarið fremur milt norðanlands og september einstaklega sólríkur og hlýr. Þannig voru leysingar á fönnum og jöklum allt fram í byrjun október þegar snjór loks settist að til fjalla.

Afkomumælingar jökulárið 2016–2017 endurspegluðu tíðarfarið ágætlega, ársafkoma reyndist neikvæð um -0,9 – -1,1 m vatnsgildis fyrir Búrfellsjökul og Teigarjökul. Það samsvarar því að ríflega 1 m þykkur ís hafi að jafnaði tapast af yfirborði jöklanna. Vetrarákoma var um 1,0 – 1,2 m vatnsgildis á Búrfells- og Teigarjökli, sem er um 0,5 m minna en í meðalvetri og sumarleysingin var í rúmu meðallagi eða um -2,0 – -2,2 m vatnsgildis.  Meginskýringin á neikvæðri ársafkomu jöklanna er nefnd hér að framan, það er að segja rýr vetrarákoma (sú minnsta frá upphafi ákomumælinga árið 2007) og milt sumar og haust 2017.

Ársafkoma Búrfellsjökuls og Teigarjökuls var talsvert neikvæð jökulárið 2016–2017
Mynd: Skafti Brynjólfsson

Ársafkoma Búrfellsjökuls (t.v.) og Teigarjökuls (t.h.) var talsvert neikvæð jökulárið 2016–2017. Magn íss og snævar sem tapaðist af jöklunum jafngildir um 0,9–1,1 m djúpu vatni jafn dreifðu yfir flatarmál jöklanna. Litaflákarnir á myndinni sýna breytileika ársafkomunnar á yfirborði jöklanna.

Sumarleysing og vetrarákoma á Búrfellsjökli og Teigarjökli 2016–2017
Mynd: Skafti Brynjólfsson

Búrfellsjökull (t.v.) og Teigarjökull (t.h.). Punktmælingar á vetrarákomu eru birtar ofan á korti sem sýnir sumarleysingu jöklanna, öll gildi eru vatnsgildi í metrum.

Neikvæð ársafkoma Deildarjökuls og Hausafannar var mun vægari eða um -0,3 m vatnsgildis. Þar var vetrarákoma nokkuð meiri, eða um 1,5 m og 1,6 m vatnsgildi, sem er í tæpu meðallagi. Sumarleysingin, um -1,8 m vatnsgildis, varð einnig heldur vægari því vetrarsnævið huldi skítugt yfirborð Deildardalsjökuls og Hausafannar lengur en Búrfells- og Teigarjökuls. Af þessum sökum varð neikvætt  gildi ársafkomu Deildarjökuls  og Hausafannar mun vægara.

Þegar lítið snjóar á jöklana eins og síðastliðinn vetur kemur skítugt eldra yfirborð jöklanna í ljós fyrr á sumrin en eftir venjulega snjóavetur. Við þetta eykst leysing jöklanna enn frekar þar sem sumarsólskinið leysir ís og skítugan eldri snjó hraðar en tiltölulega hreinan snjó frá fyrri vetri. Slíkt munstur sást ágætlega á Búrfellsjökli og Teigarjökli jökulárið 2016–2017 en  sumarleysing varð langmest þar sem vetrarákoma mældist minnst á jöklinum.