Frjókorn byrja að mælast í lofti

16.04.2018
Karlreklar elris losa út frjókorn, tími frjókornaofnæmis í aðsigi
Mynd: Erling Ólafsson

Karlreklar elris losa út frjókorn, tími frjókornaofnæmis í aðsigi.

Frjómælingar eru hafnar í Garðabæ og á Akureyri og munu þær standa út september. Hægt er að fylgjast með mælingum á birki og grasfrjóum á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands en þær er gott að nota sem viðmið um hvenær blómgun þessara tegunda er byrjuð eða vel á veg komin.

Trjátegundin elri, einnig nefnd ölur, er farin að blómgast og á höfuðborgarsvæðinu má nú þegar sjá útsprungna rekla hanga á greinum. Með blómguninni fara frjókorn að dreifast út í andrúmsloftið og má búast við elrifrjókornum í lofti næstu daga og vikur ef veður fer hlýnandi. Elri er af elriættkvísl, Alnus, og eru átta tegundir ræktaðar hér á landi. Þær leynast víða, oftast sem stök tré í görðum. Elri er fyrst allra tegunda, sem valda ofnæmi, til að blómstra á vorin eða fljótlega eftir að hitastig fer upp fyrir 5°C. Fólk með birkiofnæmi getur fundið fyrir ofnæmiseinkennum því frjókorn birkis og elris hafa sömu ofnæmisvaka.

Birki blómgast ekki strax, venjulega um og eftir miðjan maí. Á Norðurlöndunum blómgast það í apríl og dæmi eru um að frjókorn þaðan, að því talið er, hafi mælst hér á landi áður en íslenska birkið var byrjað að dreifa frjóum sínum. Birki er einn skæðasti ofnæmisvaldur á Norðurlöndunum en grasofnæmi er algengara hér á landi.

Frá 1. maí verður hægt að fylgjast með mælingum á birki- og grasfrjóum á vef stofnunarinnar en það eru helstu frjóofnæmisvaldar á Íslandi. Mælingarnar er gott að nota sem viðmið um hvenær blómgun tegundanna hefst og geta þær, ásamt veðurspám, hjálpað þeim sem eru haldnir ofnæmi að spá fyrir um frjómagn. Ef veður er þurrt með svolitlum vindi má búast við háum frjótölum hjá blómstrandi tegundum sem dreifa frjóum sínum með vindi.