Frjómælingar í júní

06.07.2018
Háliðagras
Mynd: Erling Ólafsson

Háliðagras.

Á Akureyri mældist fjöldi frjókorna í júní yfir meðallagi en í Garðabæ mældust mjög fá frjókorn. Á báðum stöðum er frjótíma birkis lokið en aðalfrjótími grasa er framundan í júlí og ágúst.

Í Urriðaholti í Garðabæ voru frjótölur mjög lágar í júní. Heildarfrjótala mánaðarins er 373 frjó/m3 en meðalfrjótala í júní er 1352 frjó/m3. Mest var um furufrjó, þá birkifrjó og loks grasfrjó en lítið mældist af öðrum tegundum. Mikil úrkoma og kuldi í júní skýrir hversu fá frjókorn mældust.

Á Akureyri var heildarfrjótalan 883 frjó/m3 en meðalfrjótala í júní er 694 frjó/m3. Flest frjókornanna voru birki- og grasfrjó en aðrar frjógerðir voru einkum súru-, furu-, stara-, ylli og víðifrjó.

Í júlí og ágúst er aðalfrjótími grasa. Í hlýju og þurru lofti og smá golu dreifast frjókornin helst og þá er best fyrir þá sem hafa frjókornaofnæmi að sleppa því að þurrka þvottinn úti og sofa við lokaðan glugga. Hafa ber í huga að með því að slá grasið fyrir blómgun þá myndast ekki frjókorn. Fari frjótölur grass yfir 10–20 frjó/m3 á einum degi má búast við að ofnæmiseinkenna verði vart en það er þó einstaklingsbundið hversu næmt fólk er ásamt nálægð þess við blómstrandi grasið.

Nánar um frjómælingar

Fréttatilkynning um frjómælingar í júní 2018 (pdf)