Náttúrufyrirbæri sem njóta sérstakrar verndar í kortasjá

13.07.2018
Skjáskot af kortasjá yfir tiltekin náttúrufyrirbæri sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd
Mynd: Náttúrufræðistofnun Íslands

Skjáskot af kortasjá tiltekinna náttúrufyrirbæra sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd.

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur opnað nýja kortasjá þar sem sýnd eru tiltekin náttúrufyrirbæri sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt 61. grein laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Uppfærð útgáfa kortasjárinnar verður tilbúin haustið 2018 og þá verða landupplýsingagögn gerð aðgengileg til niðurhals.

Í 61. gr. náttúruverndarlaga er fjallað um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja. Náttúrufræðistofnun Íslands skal halda skrár yfir náttúrufyrirbæri sem þar eru talin upp, að birkiskógum undanskildum sem eru á höndum Skógræktarinnar. Tilgangur kortasjárinnar er að birta yfirlit yfir þessi náttúrufyrirbæri, sem viðauka við náttúruminjaskrá.

Í kortasjánni eru landupplýsingar um fossa og vötn; votlendi, sjávarfitjar og leirur; jarðhita; og gíga og hraun á nútíma. Nákvæmni gagna er frá 1:500.000 til 1:25.000. Upplýsingar um hella munu bætast við í haust og um birkiskóga á seinni stigum.

Kortasjá