Frjómælingar í júlí

10.08.2018
Vallarfoxgras (Phleum pratense)
Mynd: Margrét Hallsdóttir

Vallarfoxgras.

Júlí var sólarlítill og kaldari en í meðalári á höfuðborgarsvæðinu og var heildarfjöldi frjókorna því frekar lítill. Á Akureyri voru frjótölur í júlí nálægt meðaltali fyrri ára. 

Heildarfjöldi frjókorna í júlímánuði á Akureyri var 916 frjó/m3, svolítið yfir meðaltali 1998-2017 sem er 895 frjó/m3. Frjókorn voru samfellt í lofti á Akureyri allan mánuðinn. Langflest frjókornanna voru grasfrjó, 611 frjó/m3  og mældust þau nánast alla daga. Búast má við grasfrjóum í lofti í ágústmánuði ef veðurskilyrði verða þeim hagstæð. 

Samkvæmt Veðurstofu Íslands var úrkoma á höfuðborgarsvæðinu yfir meðallagi í júlí og einungis 5 dagar sem voru alveg þurrir. Sólarlítið var og kaldara en í meðalári. Af þessum sökum reyndist heildarfjöldi frjókorna frekar lítill eða 715 frjó/m3, en meðaltalið fyrir júlí er 949 frjó/m3. Frjó mældust alla daga mánaðarins en lítið var um háar frjótölur. 

Flest frjókorn í júlí voru grasfrjó, 483 frjó/m3, en grasfrjó geta mælst í ágúst í töluverðu magni ef veðurskilyrði verða þeim hagstæð. 

Nánar um frjómælingar

Fréttatilkynning um frjómælingar í júlí 2018 (pdf)