Dagur íslenskrar náttúru

14.09.2018
Hrafn (Corvus corax)
Mynd: Matthew Cicanese / www.MatthewCicanese.com

Hrafn.

Á sunnudaginn 16. september er dagur íslenskrar náttúru. Náttúrufræðistofnun Íslands og IKEA ætla að fagna deginum saman með því að bjóða upp á myndasýningu í anddyri verslunarinnar á meðan opnunartíma stendur.

Ríkisstjórn Íslands ákvað að tileinka íslenskri náttúru sérstakan heiðursdag til að undirstrika mikilvægi hennar. Dagurinn sem varð fyrir valinu er fæðingardagur Ómars Ragnarssonar, 16. september, en sem frétta- og þáttagerðarmaður hefur hann verið óþreytandi við að opna augu almennings fyrir þeim auðæfum sem felast í náttúru landsins og mikilvægi þess að vernda hana og varðveita.

Í ár ætlar Náttúrufræðistofnun Íslands að halda upp á daginn í samstarfi við nágranna sinn, IKEA. Boðið verður upp á sýningu á fjölda náttúruljósmynda sem starfsmenn stofnunarinnar og velunnarar hennar hafa tekið á ferðum sínum um landið á síðustu árum. Ljósmyndirnar verða til sýnis á tveimur skjáum í anddyri IKEA á meðan opnunartíma stendur, frá kl. 11 til 21.

Myndasýning Náttúrufræðistofnunar og IKEA á degi íslenskrar náttúru 2018
Mynd: María Harðardóttir

Sýningarstaður myndanna í anddyri IKEA.