Frjómælingar í ágúst 2018

06.09.2018
Háliðagras á Akureyri 2010
Mynd: Margrét Hallsdóttir

Háliðagras á Akureyri.

Í ágúst var fjöldi frjókorna á Akureyri hátt yfir meðallagi og í Garðabæ var hann aðeins meiri en í meðalári. Nú fer frjótíma senn að ljúka en þó má gera ráð fyrir að grasfrjóa verði vart á góðviðrisdögum í september.

Á Akureyri voru frjókorn samfellt í lofti allan ágúst og var heildarfjöldi þeirra 1.654 frjó/m3, sem er nærri tvöfalt  meðaltal áranna 1998–2017. Langflest frjókornanna voru grasfrjó, sem mældust alla daga, alls 1.514 frjó/m3. Grasfrjó hafa aðeins einu sinni áður mælst hærri í ágústmánuði en það var árið 2003. Aðrar helstu frjógerðir voru súru- og lyngfrjó en það mældist lítið af þeim.

Í Garðabæ mældust frjó alla daga ágústmánaðar fyrir utan einn, 21. ágúst, en lítið var um háar frjótölur líkt og á við um aðra mánuði þessa sumars. Þó náði heildarfjöldinn að vera rétt yfir meðaltali eða 564 frjó/m3. Flest frjókorn voru grasfrjó, alls 418 frjó/m3. Súrufrjó voru næstalgengust, eða 26 frjó/m3, en af öðrum frjókornum mældist minna.

Grasfrjó geta  mælst í september en ólíklega í miklu magni nema í sérlega góðu haustveðri.

Nánar um frjómælingar

Fréttatilkynning um frjómælingar í ágúst 2018 (pdf)