Nýir válistar plantna, spendýra og fugla

15.10.2018
Landselur við Surtsey
Mynd: Erling Ólafsson

Landselur

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur birt nýja válista plantna, spendýra og fugla. Þetta er í fyrsta sinn sem válisti spendýra er unninn hér á landi.

Válistar eru skrár yfir lífverutegundir sem eiga undir högg að sækja eða eru taldar vera í útrýmingarhættu í tilteknu landi eða svæði og byggjast þeir á viðmiðum Alþjóðanáttúruverndarsambandsins, IUCN. Íslenskir válistar eru svæðisbundið mat sem miðast við stofna sem finnast hér á landi eða innan efnahagslögsögunnar. Í válistum er verndarstaða tegunda skráð í nokkra mismunandi hættuflokka eftir því hve alvarleg ógnin er sem þær standa frammi fyrir.

Válisti plantna var fyrst gefinn út árið 1996 (Válisti 1: plöntur, pdf, 14,9 MB). Í honum eru birtir listar yfir blómplöntur og byrkninga, fléttur, mosa og þörunga, alls 235 tegundir. Válisti blómplantna og byrkninga (æðplantna) var endurskoðaður árið 2008 og aftur nú, árið 2018, þegar metnar voru 85 tegundir æðplantna. Af þeim eru 66 þeirra á válista, þar af er ein útdauð á Íslandi, átta tegundir eru í bráðri hættu og sjö tegundir í hættu. Nokkrar tegundir eru nýjar á válista og hafa þær flestar fundist hér nýlega.

Válisti fugla var fyrst gefinn út árið 2000 (Válisti 2: fuglar, pdf, 12,6 MB). Í honum er að finna skrá yfir 32 tegundir íslenskra fugla, sem áttu undir högg að sækja hér á landi, voru í útrýmingarhættu eða hafði verið útrýmt. Við endurskoðun válista fugla voru yfir 90 tegundir fugla metnar og er 41 þeirra á válista. Ein þeirra er útdauð í heiminum (geirfugl), þrjár eru útdauðar sem varpfuglar á Íslandi, þrjár eru í bráðri hættu, 11 í hættu og 23 í nokkurri hættu.

Válisti spendýra birtist nú í fyrsta sinn og er hann unnin í samvinnu við sérfræðinga Hafrannsóknarstofnunar, þau Gísla Víkingsson (hvalir) og Söndru Granquist (selir). Hér á landi hafa fundist yfir 50 tegundir land- og sjávarspendýra en við gerð válistans voru aðeins 19 tegundir metnar, enda eru flest spendýrin innflutt, flökkutegundir eða á jaðri útbreiðslu sinnar. Af tegundum sem voru metnar eru fimm á válista. Ein tegund er útdauð við Ísland (sandlægja), tvær eru í bráðri hættu (landselur og sléttbakur), ein í hættu (útselur) og ein í nokkurri hættu (steypireyður).

Á Hrafnaþingi 17. október næstkomandi, kl. 15:15, munu þau Ester Rut Unnsteinsdóttir, Kristinn Haukur Skarphéðinsson og Starri Heiðmarsson, starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands, kynna nýju válistana. Hrafnaþing er haldið í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar að Urriðaholtsstræti 6–8 í Garðabæ, 3. hæð.