Vegna ráðgjafar Náttúrufræðistofnunar Íslands um rjúpnaveiði 2018

Ráðgjöf Náttúrufræðistofnunar Íslands vegna rjúpnaveiði haustið 2018 var send umhverfis- og auðlindaráðherra þann 13. september síðastliðinn og kynnt á vef stofnunarinnar þann 12. október. Áður, eða 12. september, höfðu sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar Íslands fundað með fulltrúum umhverfis- og auðlindaráðuneytis, Umhverfisstofnunar, Skotvís og Fuglaverndar um ástand rjúpnastofnsins og veiðihorfur. Á fundinum kom meðal annars fram að viðkoma rjúpunnar um norðaustanvert landið var ágæt síðastliðið sumar en viðkomubrestur var á Vesturlandi.

Í kjölfar samráðsfundarins varð umræða innan Náttúrufræðistofnunar Íslands um hvernig best væri að framreikna stofnstærð rjúpunnar nú á haustdögum. Fram til þessa hefur verið stuðst við gögn fyrir Norðausturland, það er bæði stofnvísitala frá vori og mat á viðkomu. Miðað við nýjustu þekkingu er vitað að þessir framreikningar ofmeta stærð rjúpnastofnsins og um það er ekki deilt. Í ljósi þessa og jafnframt að viðkomubrestur var raunin hjá rjúpu á vestanverðu landinu sumarið 2018, og með skírskotun til varúðarreglunnar, var það ákvörðun Náttúrufræðistofnunar Íslands að miða framreikninga við viðkomuna á Suðvesturlandi frekar en á Norðausturlandi. Samkvæmt þessum forsendum var áætlaður veiðistofn 758 þúsund fuglar og ráðlögð veiði 67 þúsund fuglar. Hefði verið miðað við viðkomuna líkt og hún mældist á Norðausturlandi væri framreiknaður veiðistofn liðlega milljón fuglar og ráðlögð veiði 93 þúsund fuglar.

Þessar breyttu forsendur voru ekki kynntar samstarfshópi um ástand rjúpnastofnsins. Jafnframt dróst úr hömlu að kynna veiðiráðgjöf Náttúrufræðistofnunar Íslands á vefnum eftir að hún var send umhverfis- og auðlindaráðherra. Þetta er miður og ekki gert af ásetningi en útskýrt og beðist velvirðingar á fundi með fulltrúum Skotvís þann 17. október síðastliðinn. Við á Náttúrufræðistofnun biðjum félaga okkar á Umhverfisstofnun, í Skotvís og Fuglavernd afsökunar á þeim mistökum sem okkur urðu á að kynna veiðiráðgjöfina þetta árið. Það er mikilvægt að sátt sé um veiðikortakerfið og skráningu á veiði. Það er ein af forsendum sjálfbærra nytja úr rjúpnastofninum. Það er einlæg ósk Náttúrufræðistofnunar Íslands að þessi uppákoma nú á haustdögum verði ekki til að draga úr tiltrú manna á því kerfi.