Vel heppnuð Vísindavaka að baki

02.10.2018
Mynd: María Harðardóttir

Hvítur refur með rjúpu, á Vísindavöku 2018.

Vísindavaka Rannís var haldin í Laugardalshöll síðastliðinn föstudag, 28. september. Þar gafst gestum kostur á að kynnast vísindum á lifandi og gagnvirkan þátt.

Miðpunktur Vísindavöku var sýningarsvæðið þar sem gestir gátu kynnst viðfangsefnum vísindafólks á fjölmörgum sýningarbásum. Náttúrufræðistofnun Íslands var á staðnum og kynnti íslenska refinn og rannsóknir honum tengdar. Áhersla var lögð á aldursgreiningar refa en hægt er að greina aldur spendýra með að telja vetrarlínur í tannrótum þeirra, líkt og um áhringi trjáa væri að ræða. Sýningargestir fengu að spreyta sig á að meta aldur refa með því að skoða þunnsneiddar tennur í smásjá. Ester Rut Unnsteinsdóttir spendýravistfræðingur var á staðnum og svaraði spurningum áhugasamra.

Náttúrufræðistofnun Íslands tók einnig þátt í sýningunni „Óbeisluð náttúra – innviðir Surtseyjar“, þar sem kynnt var samvinnuverkefni Jarðvísindastofnunar HÍ, Matís, Ísor og Náttúrufræðistofnunar. Kynnt var borun í Surtsey árið 2017 og rannsóknir á myndun eldfjallaeyjar í N-Atlantshafi. Kristján Jónasson jarðfræðingur var fulltrúi stofnunarinnar í sýningunni.

Í tilefni af Vísindavöku gaf Náttúrufræðistofnun út bæklinginn Íslenski refurinn þar sem finna má ýmsar upplýsingar um refinn og rannsóknir á honum.

Að neðan má sjá myndir frá refasýningarbás Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Mynd: María Harðardóttir

Sýningarbás Náttúrufræðistofnunar Íslands, „Íslenski refurinn“, á Vísindavöku 2018.

Mynd: María Harðardóttir

Sýningarbás Náttúrufræðistofnunar Íslands, „Íslenski refurinn“, á Vísindavöku 2018.

Mynd: Anette Th. Meier

Ester Rut Unnstdinsdóttir fræðir áhugasama gesti um aldurgreiningar á refum.

Mynd: Anette Th. Meier

Gestir á öllum aldri voru áhugasamir um refinn.

Mynd: María Harðardóttir

Refagrímur.

Mynd: Anette Th. Meier

Refagrímur í undirbúningi.

Mynd: Anette Th. Meier

Lítill refur skottaðist um í básnum.

Vísindavaka 2018, Refur, Melrakki, Tófa, Aldursgreining, Tennur, Kjálkar, Hauskúpur
Mynd: Anette Th. Meier

Hauskúpur, kjálkar, tennur og skott voru meðal þess sem skoða mátti á sýningunni um refinn.