Ný bók um mosa á Íslandi

16.11.2018
Gróhirslur svarðmosa í Reykhólasveit
Mynd: Erling Ólafsson

Gróhirslur svarðmosa í Reykhólasveit.

Nýlega kom út bókin bókin „Mosar á Íslandi“ eftir Ágúst H. Bjarnason plöntuvistfræðing. Í henni er blaðmosum, flatmosum og hornmosum lýst í máli og myndum. Útgefandi er höfundur sjálfur.

Í bókinni eru greiningarlyklar að öllum tegundum mosa hérlendis, en nú eru þekktar liðlega 600 tegundir. Flokkunarkerfi íslenskra mosa er uppfært eftir nýjustu þekkingu, ásamt greiningarlyklum. Að jafnaði lýsir höfundur helstu tegundum innan hverrar ættkvíslar, en ýmsum hinum sjaldgæfari er þó sleppt.

Ágúst hefur víða leitað fanga við samningu þessa rits enda umfjöllunarefnið umfangsmikið. Þar á meðal er 21 hefti af Fjölritum Náttúrufræðistofnunar sem Bergþór Jóhannsson vann að alla sína starfsævi hjá stofnuninni og komu út árin 1989–2003. Um útbreiðslu mosategunda studdist Ágúst við kort á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands, auk eigin athugana. Fjölmargar teikningar af öllum helstu mosategundum skýra mál höfundar auk þess sem hundruð ljósmynda prýða bókina.

Með ritinu „Mosar á Íslandi“ kynnir Ágúst heildstæða samantekt yfir mjög mikilvægan hluta af flóru Íslands og leggur grunn að frekar þekkingu á henni. Höfundur vonast til að bókin komi sem flestum að gagni, ekki síst fróðleiksfúsum almenningi og áhugasömum nemendum. Bókin á einnig erindi við náttúrufræðinga sem vilja kynna sér betur heim mosanna. Um leið og náttúrufræðingar fagna útgáfu bókar um mosa Íslands, þá óskar Náttúrufræðistofnun Íslands höfundi innilega til hamingju með þetta veglega rit.