Eyþór Einarsson 90 ára

Eyþór Einarsson er fæddur árið 1929 í Neskaupsstað. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1949, cand.phil. frá Háskóla Íslands 1950 og mag.scient.-prófi í náttúrufræði frá háskólanum í Kaupmannahöfn 1958.

Að námi loknu fluttist Eyþór aftur heim. Hann var deildarstjóri grasafræðideildar Náttúrufræðistofnunar Íslands frá 1. janúar 1959 og forstöðumaður stofnunarinnar samtals í 14 ár. Hann var stundakennari í náttúrufræði við Menntaskólann í Reykjavík frá 1958–1968 og skipulagði kennslu í grasafræði við Háskóla Íslands þegar líffræðikennsla þar var undirbúin, og var stundakennari þar 1968–1989.

Á starfsferli sínum vann Eyþór við rannsóknir á æðplöntum, plöntulandafræði og gróðurfari Íslands, einkum til fjalla, allt frá 1955 og landnámi plantna og framvindu gróðurs í jökulskerjum í Vatnajökli frá 1961. Auk þess fékkst hann við rannsóknir á sviði náttúruverndar, einkum hvað snertir hugsanlegar breytingar á flóru og gróðurfari af völdum verklegra framkvæmda.

Eyþór sat í Náttúruverndarráði frá 1. janúar 1959, var varaformaður 1972–1978 og formaður 1978–1990. Hann var varaformaður stjórnar raunvísindadeildar Vísindasjóðs 1974–1978 og formaður 1978–1986. Eyþór var fulltrúi Íslands í náttúruverndarnefnd Evrópuráðsins frá stofnun árið 1963 til ársins 1993 og formaður 1985–1986. Auk þessa átti Eyþór sæti í ýmsum nefndum um fræðslu og rannsóknir á sviði náttúruvísinda og náttúruverndar, hvoru tveggja heima og erlendis, meðal annars á vegum Evrópuráðs og Norðurlandaráðs og Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN) og var formaður sumra þeirra.

Eyþór var formaður Félags íslenskra náttúrufræðinga 1960–1962, ritari Hins íslenska náttúrufræðifélags 1960–1964 og formaður þess 1964–1966 og 1976–1980. Hann var í stjórn Ferðafélags Íslands 1968–1979 og varaforseti þess 1977–1979. Hann var í stjórn Landverndar frá stofnun árið 1969 til ársins 1973 og í stjórn Surtseyjarfélagsins frá stofnun árið 1965. Eyþór var valinn félagi í Vísindafélagi Íslands 1987.

Á starfsævinni tók Eyþór þátt í mörgum rannsóknarleiðöngrum, sótti fjölda alþjóðlegra funda erlendis um grasafræði og náttúruverndarmál og flutti fyrirlestra um gróður Íslands og náttúruvernd víða um heim. Hann var kjörinn félagi New York Academy of Sciences 1982, félagi Vísindafélags Íslendinga 1987, kjörinn „Foreign Member“ eistneska náttúruverndarfélagsins 1991, og kjörinn heiðursfélagi Hins íslenska náttúrufræðifélags 1993. Eyþór söng einnig lengi með Söngsveitinni Fílharmóníu og var formaður hennar 1968–1969.

Eftir Eyþór liggja margar greinar um náttúrufræðileg efni, þar sem áherslan hefur verið á grasafræði og náttúruvernd. Hann hefur tekið fjölda ljósmynda af plöntum og gróðurfari og hafa sumar þeirra birst í bókum, á veggspjöldum og póstkortum.

Náttúrufræðistofnun Íslands óskar Eyþóri innilega til hamingju með daginn.