Frjómælingar í apríl og maí

07.06.2019
Birkirekill tilbúinn að dreifa frjóum sínum
Mynd: Ásrún Elmarsdóttir

Birkirekill tilbúinn að dreifa frjóum sínum.

Frjómælingar hafa staðið yfir á Akureyri og í Garðabæ síðan í mars. Í apríl var fjöldi frjókorna langt yfir meðaltali á Akureyri enda óvenju hlýtt en í Garðabæ var úrkoma mikil og þar að leiðandi ekki mörg frjókorn í lofti. Á báðum stöðum var fjöldi frjókorna yfir meðallagi í maí.

Frjómælingar hófust á Akureyri 25. mars en einungis nokkur frjókorn mældust þann mánuðinn. Í apríl var fjöldi frjókorna 680 frjó/m3 sem er langt yfir meðallagi. Stærsti hluti þeirra voru aspar- og birkifrjó og hafa aldrei áður mælst svo mörg asparfrjó í aprílmánuði. Óvenjulegt er að birkifrjó mælist í apríl því birki er ekki byrjað að dreifa frjóum sínum á þeim tíma. Líklegasta skýringin er sú að þau hafi borist með sterkum vindum frá Austur-Evrópu. Í maí mældist sami frjókornafjöldi og í apríl sem er nokkru yfir meðaltali. Þann mánuð voru birkifrjó langalgengust.

Í Garðabæ hófust frjómælingar 15. mars en þann mánuð mældust aðeins sjö frjókorn. Í apríl mældist mikið af birkifrjóum, líkt og á Akureyri, sem bárust hingað til lands með vindum. Þar fyrir utan mældist frekar lítið af frjókornum í Garðabæ, þrátt fyrir hlýindi, en úrkoma var nokkuð mikil og er það líklegast skýringin. Fjöldi frjókorna var rétt yfir meðallagi í maí og voru birkifrjó þá algengust.

Fréttatilkynning um frjómælingar í apríl og maí 2019 (pdf)