Bernarsamningurinn 40 ára

19.09.2019
Bernarsamningurinn 40 ára

Af forsíðu vefsins 40 years of the Bern Convention.

Í dag eru 40 ár frá undirritun Bernarsamningsins en hann var fyrsti alþjóðasáttmálinn sem fjallar í senn um verndun tegunda og búsvæða þeirra. Meginmarkmið samningsins er að vernda evrópskar tegundir villtra plantna og dýra og vistgerða sem þarfnast verndar.

Bernarsamningurinn var undirritaður 19. september 1979 og staðfestur hér á landi árið 1993. Hann er vistaður hjá Evrópuráðinu og nær til 51 ríkis sem flest eru í Evrópu. Samningurinn hefur haft mikil áhrif á náttúruverndarlöggjöf aðildarríkjanna og framkvæmd hennar, meðal annars hér á landi, til að mynda hvernig staðið er að því að skrá, flokka, meta og vakta lifandi náttúru.

Til að fagna 40 ára afmæli samningsins hefur verið hleypt af stokkunum vitundarherferð undir slagorðinu „Heilbrigð náttúra fyrir heilbrigða Evrópubúa“ sem ætlað er að endurspegla mikilvægi náttúruverndar í lífi okkar allra. Í átakinu er áhersla lögð á fjórar meginaðgerðir:

  • Að vernda líffræðilegra fjölbreytni til að viðhalda viðkvæmu jafnvægi milli tegunda í vistkerfum okkar.
  • Að takast á við umhverfislegar áskoranir eins og loftslagsbreytingar, framandi ágengar tegundir og skaðlegar athafnir manna.
  • Að auka vitund og virkni almennings í verndun náttúruarfleifðar okkar.
  • Að vernda náttúrulegar vistgerðir og mikilvægt hlutverk þeirra við að hýsa fjölda tegunda dýra og plantna.

Undanfarna fjóra áratugi hefur Bernarsamningurinn séð um að skipuleggja sameiginlegt átak stjórnvalda, félagasamtaka, félagsmálastofnana og almennings, þar sem unnið er saman að verndun náttúrunnar. Í tilefni af afmæli samningsins hafa verið tekin saman dæmi um árangur þessa starfs sem aðgengileg eru í formi sagna á vefnum 40 years of the Bern Convention.

Náttúrufræðistofnun Íslands fer með framkvæmd Bernarsamningsins hér á landi. Starfsfólk stofnunarinnar sækir fundi aðildarríkjanna og sérfræðingafundi samningsins fyrir Íslands hönd og tekur þátt í störfum mikilvægra undirnefnda.

Fréttatilkynning Bernarsamningsins (pdf)

Vefur Bernarsamningsins